Lögleiðing fíkniefnaneyslu

Í vikunni lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp um að lögleiða neyslu fíkniefna. Þar undir eru öll hin kunnu ólöglegu fíkniefni. Samhliða fyrirætlunum um lögleiðingu fíkniefnaneyslu hefur aðgerðin fengið nýtt heiti sem er afglæpavæðing. Alvanalegt virðist að beita villandi orðalagi svo auðveldara verði að vinna þeim fylgi og er skemmst að minnast fóstureyðingarlöggjafarinnar.

Alvarlegur vandi

Ef við hugsum til unga fólksins er enginn vafi á að fíkniefnaneysla er alvarlegasti vandinn sem steðjar að þeim hópi. Stjórnlaus fíkn í þessi efni hefur vægast sagt skaðleg áhrif á mjög marga, bæði fíklana en ekki síður þá sem næst þeim standa. Í störfum mínum til áratuga í lögreglunni varð ég áþreifanlega var við þetta, örvæntinguna, vonleysið og bjargarleysið. Sú barátta var oft á tíðum upp á líf og dauða. Allt of margir falla í þeirri baráttu.

Berstrípað frumvarp

Frumvarp heilbrigðisráðherra gengur efnislega út á að heimila kaup og vörslu fíkniefna, svo lengi sem um neysluskammta sé að ræða. Frumvarpið sem slíkt stendur hins vegar berstrípað, þar sem því fylgja engar hliðaraðgerðir, eins og títt er meðal þeirra þjóða sem hafa farið áþekka leið. Þannig fylgja ekki neinar aðgerðir á sviði heilbrigðis-, forvarnar-, meðferðar- eða löggæslumála. Hér er því á ferð illa undirbúið og vanhugsað frumvarp. Fíkniefnaneytendur fá ekki samhliða bætt meðferðarúrræði, ráðgjöf og mál þeirra fara ekki í neinn sérstakan farveg til að taka á vandamálinu sem þessi hópur á við að etja. Engin tilraun er gerð til að skilgreina hvað sé neysluskammtur og það er eftirlátið ráðherra. Þegar talsmenn frumvarpsins segja að þetta sé leiðin sem aðrir séu að fara, þá er það rangt. Margar aðrar þjóðir, sem hafa farið þessa leið, taka samhliða upp fjölþættar aðgerðir til aðstoðar fíklum.

Mikil neysluaukning

En hvernig hefur reynsla annarra þjóða verið af því að lögleiða neyslu fíkniefna? Samkvæmt Evrópsku vímuefnarannsókninni (ESPAD) jókst neysla meðal unglinga í Portúgal á fíkniefnum öðrum en kannabis þrefalt á tuttugu árum frá 1995. Sömu sögu er að segja frá Hollandi, hlutfall ungmenna sem höfðu prófað kannabis þrefaldaðist á rúmlega tíu árum frá 1984, en á Íslandi er hún einmitt þrefalt minni en í Hollandi.

Viðamiklir vankantar

Þegar svipað frumvarp var lagt fram á síðasta þingi bárust umsagnir frá ýmsum aðilum, þ.á m. Embætti landlæknis, ríkissaksóknara og Lögreglustjórafélagi Íslands þar sem þeir ýmist lögðust gegn frumvarpinu eða bentu á að þörf væri á að útfæra málið miklu betur. Í samráðsgátt stjórnvalda þegar áform um frumvarpið voru kynnt fyrr á þessu ári barst umsögn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar sem bent er á þá ágalla sem eru á frumvarpinu. Bendir lögreglustjórinn á að ekki hafi verið gerð verkefnisáætlun og svo virðist sem takmörkuð vinna hafi farið fram til undirbúnings þessu viðamikla verkefni sem lýtur ekki einungis að breytingum á lögum. Ekki hafi verið farið í umfangsmikla stefnumótunarvinnu eins og gert hefur verið í Noregi og eru tillögur þar í landi langt í frá eins róttækar og hér á landi. Í lokin hvetur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu til þess að farið verði í heildstæða stefnumótunarvinnu og bendir á norska fordæmið í því sambandi.

Sölumenn innan um neytendur

Löggæslumenn mega búast við að neytendur veifi efnunum framan í þá og sölumenn munu fela sig innan um neytendur. Þegar svo verður komið hefur lögreglan fá úrræði við að berjast gegn dreifingu efnanna. Fjölmörg dæmi eru um að haldlagning lögreglu á smærri skömmtun hafi leitt til uppljóstrunar stórra dreifingarmála, fjölþættrar brotastarfsemi og peningaþvættis.

Varnaðaráhrif

Varnaðaráhrif refsinga eru ekki síst að fæla fólk frá því að fremja afbrot. Afleiðing af lögleiðingu neysluskammta verður líkast til sú að ekkert tiltökumál verður fyrir hinn almenna ungling að sækja fíkniefnapartíin og þegar kæruleysið tekur völdin að prófa efni af léttara tagi. Það er alkunn staðreynd að þeir sem ánetjast fíkniefnum byrja í vægari vímuefnum, en færa sig síðan fljótt yfir í harðari neyslu. Staðreyndin er sú að enginn fagnar þessu frumvarpi meira en sölumenn dauðans.

Eflum meðferðarúrræði og forvarnir

Að leggja slíkt frumvarp fram nú rétt fyrir kosningar, algjörlega vanbúið að þessu leyti, er einungis auglýsingamennska. Miðað við orð ýmissa þingmanna virðist frumvarpið njóta nokkurs stuðnings í þinginu, sem er í raun ótrúlegt miðað við hversu ófullburða það er. Miðflokkurinn mun bregða skildi fyrir ungmennin í landinu og berjast gegn vanhugsaðri lögleiðingu fíkniefna. Efla þarf meðferðarúrræði fyrir þá sem nú þegar berjast við fíkn, styrkja lögregluna í baráttunni við sölu og dreifingu efnanna og auka forvarnir.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

kgauti@althingi.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 17. apríl, 2021