Má borgarlínan kosta hvað sem er?

Borgarlínan er úrelt tækni. Þetta sagði Guðmundur Fertram, forstjóri Kerecis á Ísafirði, á dögunum og ég tók undir með honum hér á síðum þessa blaðs í kjölfarið. Það blasir nefnilega við þeim sem vilja sjá að borgarlínan byggist á úreltri tækni og mun í engu leysa neinn samgönguvanda heldur auka á hann. Og þeir eru til sem velja að loka augunum og henda mörg hundruð milljörðum af peningum almennings í verkefnið.

Borgarlínuævintýrið mun kosta um 250 milljarða hið minnsta, ef fram heldur sem horfir. Þó að þessi tala sé óþægileg fyrir meðlimi borgarlínukirkjunnar þá er auðvelt að skoða hvað stendur þar að baki. Það má þræða sig í gegnum kostnaðinn, reyndar óháð rekstrinum því kostnaðurinn við hann er enn óljós enda engin rekstraráætlun til. En skoðum þetta aðeins.

Þegar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður í september 2019 var málum stillt þannig upp að innviðir borgarlínu myndu aðeins kosta 49,6 milljarða. Markaðsmennirnir voru fengnir í málið til að villa um fyrir fólki því þótt þessi tala væri há var raunveruleikinn verri.

Markaðsmennirnir stilltu þessu þannig upp að stofnbrautaframkvæmdirnar, þ.e. Sæbrautarstokkur og Miklubrautarstokkur, sem eru undirstaða þess að borgarlínan geti orðið að veruleika, yrðu undanskildar í tali um kostnað við verkefnið. Fullkomið raunveruleikarof enda framkvæmdirnar augljós hluti af innviðum borgarlínu.

Áætlun kostnaðar við Sæbrautarstokkinn er nú þegar farin 550% fram úr upphaflegum áætlunum og leiða má líkum að því að Hringbrautarstokkurinn ætti að vera 100% hærri í grunnmati, hið minnsta.

Kostnaðarmatið vegna innviða borgarlínu hefði því átt að vera um 110,9 milljarðar króna í september 2019 en ekki 49,6 milljarðar. Svo væri ráðlegt að setja 110,9 milljarðana á mælistiku Nýja Landspítalans, þar sem kostnaður hefur vaxið um tæp 200% frá þeim tíma sem samgöngusáttmálinn var kynntur 2019. Þá stæði kostnaðurinn við borgarlínu í um 217,1 milljarði. Þá er ekki talinn með kostnaðurinn við að kaupa vagnana og reka borgarlínuna.

Það blasir því við að 250 milljarða kostnaðarmat við borgarlínuævintýrið í heild sinni er varlega áætlað.

Maður hlýtur því að stoppa við og hugsa: hvar eru þeir sem töluðu einu sinni fyrir því að fara varlega með skattfé almennings, að hafa hagkvæmni að leiðarljósi og rasa ekki um ráð fram? Eru þeir uppteknari af ímynd sinni, umbúðum og samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn – sem sífellt finna nýjar leiðir til að niðurlægja vini sína í Valhöll?

Það væri nær að menn tækju til við að skammast sín og vinda ofan af þessari vitleysu. Leysa landsmenn úr viðjum úreltrar tækni sem engu skilar nema skuldum og hærri sköttum fyrir komandi kynslóðir.

Er ekki nóg komið?

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 25. júlí, 2023.