Orð eru ódýr

Þegar þessi grein er skrifuð hafa gögn nýlega borist atvinnuveganefnd Alþingis frá Matvælaráðuneytinu, rétt fyrir sjö að kvöldi. Gögn sem nefndin bað um til að sjá hvort ráðherrann hafi framkvæmt sjálfstæða rannsókn, að fengnu áliti fagráðs og tryggt lagalegan grunn ákvörðunarinnar um að stöðva veiðar á langreyðum. Ráðherrann hefur hingað til aðeins bent á álit fagráðs um velferð dýra máli sínu til stuðnings en það er ekki hlutverk þess ráðs að framkvæma mat á stjórnarskrárvörðum réttindum, lögum og öðru sem horfa þarf til við jafn viðamikla ákvörðun. Þess utan gat ráðið ekki einu sinni farið að stjórnsýslulögum við vinnslu síns eigin álits, eins og því bar að gera.

Það er kannski ekki skrýtið að það hafi tekið tíma fyrir ráðherrann að senda umbeðin gögn til þingsins enda virðist blasa við eftir skimun gagnanna að engin slík sjálfstæð rannsókn ráðherra hafi farið fram. Áfram er klifað á áliti fagráðsins og allur þungi lagður á þá einu blaðsíðu sem ráðið skilaði af sér. Það var heldur ekki við miklu að búast enda gaf ráðherra sér ekki sólarhringinn til að taka ákvörðun sína.

Sjálfstæðismenn hafa nokkrir talað mikið í kjölfar ólögmætrar ákvörðunar matvælaráðherrans. Á fundi á Akranesi sem Verkalýðsfélag Akraness hélt stuttu eftir að ákvörðun ráðherrans var kynnt kom fram fortakslaus krafa þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Í gær birtist grein eftir þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins þar sem sagði með öðrum orðum að þingmenn stærsta stjórnarflokksins hefðu misst allt traust til matvælaráðherrans og það myndi hafa áhrif á samstarf í ríkisstjórn.

Ég verð því að spyrja – og hvað svo?

Ætlar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að láta þessa vanvirðingu og lögleysu matvælaráðherrans yfir sig ganga? Ætlar þingflokkurinn að taka þátt í því að virða atvinnuréttindi stjórnarskrárinnar að vettugi svo ráðherra geti gengið sinna pólitísku erinda? Ætlar þingflokkurinn að sitja í ríkisstjórnarsamstarfi sem er rúið trausti? Ætlar þingflokkurinn sem í orði „berst fyrir atvinnufrelsi, sjálfbærri nýtingu auðlinda og stjórnsýslu þar sem meðalhófs er gætt,“ svo vísað sé í orð þingflokksformannsins, að berjast fyrir því á borði?

Orð eru nefnilega ódýr. Ókeypis raunar ef menn láta ekki kné fylgja kviði.

Eins og fram kom á fundinum á Akranesi liggur fyrir að hægt væri að mynda nýja ríkisstjórn á morgun, með Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Miðflokki, og vinda ofan af þessari lögleysu og vitleysu matvælaráðherrans. Það er mín ósk fyrir gömlu vini mína í Sjálfstæðisflokknum að þeir gangi ekki með galopin augun í gegnum sína mestu niðurlægingu seinni tíma – að sitja sem fastast í þessu ríkisstjórnarsamstarfi með Vinstri grænum.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 6. júlí, 2023.