Óvæntur sparnaður

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins:

Mínar fyrstu tillögur eftir að ég settist í borgarstjórn voru sparnaðar- og hagræðingartillögur. Þær hafa síðan verið eitur í beinum borgarstjóra og meirihlutans. Hefði verið tekið tillit til þeirra strax í upphafi kjörtímabilsins væri staða Reykjavíkurborgar allt önnur í dag. Umfangsmesta tillagan gekk út á að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur, skilgreina grunnþjónustu og forgangsraða í rekstrinum.

Önnur tillaga gekk út á að skera niður utanlandsferðir til mikilla muna því í leiðinni sparaðist dagpeningagreiðslur og hótelkostnaður. Sú tillaga hlaut sömu örlög. Borgarstjóri og meirihlutinn felldi hana. Aldrei datt mér í hug að tillagan fengi brautargengi eins og nú hefur raungerst vegna COVID-19. Af þessu tilefni lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svars í borgarráði sem var svohljóðandi: „Hvað hefur ferðakostnaður Reykjavíkur lækkað mikið á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við árið 2019? Óskað er eftir sundurliðun fyrir A-hluta, með öllum undirstofnunum, sundurliðun fyrir yfirstjórn án undirstofnana og samstæðunnar í heild.“

Með ferðakostnaði er átt við ferðalög, hótelkostnað, uppihald og dagpeninga á Íslandi og erlendis. Hið skriflega svar er gallað að því leyti að ekki er birtur ferðakostnaður fyrir samstæðuna í heild og hefur fyrirspurnin því verið lögð fram aftur. En lítum á ferðakostnað borgarsjóðs (A-hluta). Svarið/samanburðurinn nær einungis til fyrstu sex mánaða áranna 2019 og 2020 þrátt fyrir að beðið hafi verið um níu mánaða yfirlit. Ferðakostnaður fyrstu sex mánuði ársins 2020 er 66,5% lægri en á sama tímabili ársins 2019 eða sem nemur rúmum 44 milljónum króna. Eins og allir vita má segja að landið hafi lokast í byrjun mars og ekki sér fyrir endann á því ástandi, því miður. Því er hægt að fullyrða að sparnaðurinn komi til með að hækka um tugi prósenta og fara langt yfir 100 milljónir þegar árið verður gert upp.

Til hamingju Reykvíkingar – loksins fann ég sparnað í rekstrinum þótt ástæðurnar séu miður skemmtilegar. Með tilkomu tækninnar sem tekin var fyrir alvöru í notkun í COVID-19 eru engin rök fyrir öðru en að draga stórlega úr öllum utanlandsferðum og ná fram sparnaði í rekstri fyrir útsvarsgreiðendur til allrar framtíðar.

 

Höfundur:  Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur og borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 5. október, 2020