Raunheimarof í Reykjavík

Hroðalegar afleiðingar fjármálaóstjórnar borgarstjóra og meðreiðarsveina hans í meirihluta borgarstjórnar eru nú öllum ljósar. Íslandsmet sveitarfélaga í taprekstri, sem senn stefnir í að verði slegið með þeim hætti að það verður aldrei bætt, hefur skapað ástand sem öllum má ljóst vera að er ósjálfbært fyrir borgina.

Það er ekki öllum gefið að tapa 1.750.000 krónum eða tæpum tveimur milljónum á klukkustund, allan sólarhringinn, alla daga ársins - en það tókst borgarstjóra Samfylkingarinnar.

Þetta eru 115 þúsund á hvern íbúa borgarinnar, tæp hálf milljón á ári, fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu. Og það á bara einu ári.

Það sem verra er að á meðan hefur borgarstjóri sagt ósatt um stöðuna, gegn betri vitund. Fyrst í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga fyrir stuttu síðan, þar sem nýju varadekki í formi Framsóknarflokksins var skipt undir vagn meirihlutans og svo oft í framhaldinu. Dagur B. Eggertsson gerði sitt besta til að teikna upp falska mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar, ítrekað.

En á endanum tala tölurnar sínu máli. Nú er hinn fjárhagslegi raunveruleiki kominn í ljós. Þegar allt er komið í óefni reynir borgarstjórinn nú sitt besta til að kenna öðrum um – þó aðallega leikskólakennurum (sem á að fækka um 75 á næsta ári!), fötluðum og heimsfaraldri. Allt augljóslega ótrúverðugar skýringar þegar litið er til þess að áætlun fyrir árið 2022 varí2,8 milljarða halla fyrir stuttu, fyrir kosningar, en hefur nú „skyndilega“ sexfaldast og endar þannigí15,3 milljarða halla. Auðvitað eru þetta allt einhverjar brellur til að þyrla ryki í augu kjósenda.

Einari Þorsteinssyni, sauðtrygga varadekki borgarstjóra, var att á foraðið til að útskýra hina hroðalegu stöðu, enda nennir borgarstjórinn síður svona leiðindum þar sem enginn er borðinn til að klippa eða fólk að klappa. Lausn þeirra félaga var einföld við 15 milljarða hallanum – hætta að ráðaíónauðsynlegar stöður. Þar kom það.

Ekki er lagt til að fækka þeim sem þegar hafa verið ráðnir í allar þessar ónauðsynlegu stöður, og finnast til dæmis í miðlægri stjórnsýslu eða á skrifstofu borgarstjóra. Nei, meirihlutinn taldi líklegast til árangurs að ráðast á viðkvæmustu þjónustuna í borginni, sem þegar er í lamasessi vegna manneklu. Það á að fækka leikskólakennurum! Kannski ætlar borgarstjórinn Einari líka að passa öll þessi börn sem ekki komast í daggæslu næstu árin.

Borgarbúar þurfa því miður að reyna á eigin skinni hvað það þýðir þegar Samfylkingin heldur um stjórnartaumana.

Viðreisn lætur sitt svo ekki eftir liggjaíþessari umræðu og telur rétt að huga nú sem fyrst að lagningu neðanjarðarlestar á höfuðborgarsvæðinu

Raunheimarofið í Reykjavík verður varla mikið meira en lengi skal manninn reyna.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember, 2022.