VG svíkur D í útlendingamáli

Það vakti athygli að frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga stoppaði í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og var eftir nokkrar vikur afgreitt með fyrirvörum þingmanna flokksins við frumvarp eigin ráðherra.

Þingflokkar Framsóknarflokks og Vinstri grænna afgreiddu frumvarp dómsmálaráðherra í gegnum þingflokka sína um leið og frumvarpið kom inn til þeirra, væntanlega með það í huga að það væri búið að þynna málið svo út að lítið bit væri eftir í því og rétt væri að festa dómsmálaráðherra hið snarasta í eigin neti.

Það vakti sérstaka athygli að málið þurfti ekki að ganga aftur til þingflokka VG og B eftir afgreiðslu þingflokks D, sem þýðir væntanlega að engar breytingar voru gerðar.

Enn veit enginn hverjir fyrirvarar sjálfstæðisþingmanna eru við frumvarp eigin ráðherra. Eða hvort þeir koma fram áður en málið dagar uppi.

Þann 21.október birtist á mbl.is frétt undir fyrirsögninni „VG styður framlagningu útlendingafrumvarps“ – þar kom í ljós að VG styður ekki hið útþynnta frumvarp dómsmálaráðherra (sem er þó til bóta og nýtur stuðnings þingflokks Miðflokksins) heldur styður stjórnarflokkurinn það eitt að málið komist til þinglegrar meðferðar. Var það samkomulag stjórnarflokkanna?

Því verður vart trúað eftir að Sjálfstæðisflokkurinn lét draga sig í þá vegferð að samþykkja frumvarp sem ráðherrar Framsóknar og VG höfðu lagt fram um samræmda móttöku flóttamanna, þar sem allir njóta sömu réttinda, burtséð frá því hvort þeir komu hingað í boði stjórnvalda undir regluverki kvótaflóttamanna, eða á eigin vegum, eða í raun á vegum glæpagengja sem hafa gert sér neyð fólks að féþúfu.

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG sagði í ræðu þann 25.október aðspurður um orðalag fréttarinnar: „Þegar ég segi að við afgreiðum málið frá okkur til þinglegrar meðferðar, þá þýðir það jú akkúrat þetta, að við stöndum saman í þingsal og ræðum málið sem við þurfum að gera í þremur umræðum og inni í nefnd í millitíðinni. Það er nú akkúrat það sem það þýðir.“ Af þessum orðum þingflokksformanns VG verður ekki ráðið að flokkurinn styðji stjórnarfrumvarpið eins og það liggur fyrir. Skal nú hefna fyrir afdrif frumvarps um hálendisþjóðgarð?

Á meðan VG gangast við því að styðja ekki frumvarp dómsmálaráðherra heldur Framsóknarflokkurinn áfram þátttöku sinni í Íslandsmeistaramótinu í feluleik. Þar skákar formaðurinn í því skjóli að geta ekki gefið upp afstöðu sína til útlendingamálsins fyrr en ráðherranefnd um útlendingamál, sem hann á ekki sæti í, er búin að fá sér kaffibolla. Að afloknu kaffispjallinu á stefna ríkisstjórnarinnar í málaflokknum að liggja fyrir, en ekki í því stjórnarfrumvarpi sem nú er til meðferðar.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 31. október, 2022.