Ég skrifaði í síðasta pistli mínum hér á þessum vettvangi um hvað það er langt í mark fyrir kjósendur ef ríkisstjórnin skakklappast til loka kjörtímabilsins. Í dag væru þetta 549 dagar. Fyrirtækjum og heimilum til linnulausrar armæðu.
Eftir óteljandi vandræðamál þar sem þingflokkar stjórnarinnar hafa skipst á að kyngja ælu, Sjálfstæðismennirnir þó sýnu oftast, þar sem fjöldi vandræðamála hallar í fjölda eyja, hólma og skerja í Breiðafirði, sem fjármálaráðherra gerir nú kröfur til, ríkissjóði til handa, var ég orðinn þeirrar skoðunar að það væri sennilega ekkert mál sem gæti sprengt þessa stjórn.
Þjóðarópera, þjóðarhöll, listamannalaun, húsnæðisfélög ríkisins, ófjármagnað innlegg í kjarasamninga (þar sem nú virðist eiga að selja eignir til að borga reksturinn), Fossvogsbrú, Sæbrautarstokkur, nýr Landspítali og samræmd móttaka flóttamanna. Hvalveiðimálin, linnulausar árásir á starfsskilyrði bænda. Regluverk leigubifreiða. Hælisleitendamálin. Orkumálin. Samgöngumálin. Skattahækkanir. Furðulegar þjóðlendukröfur og svona mætti lengi telja. En áfram skröltir hún þó.
Svo kom sunnudagurinn. Eftir söluferli sem hefur verið í gangi síðan 17. nóvember 2023, eða í fjóra mánuði, var tilkynnt að Kvika hefði samþykkt tilboð Landsbankans í TM.
Atburðarásin sem þá fór af stað hefur verið svolítið eins og Guy Ritchie hefði fengið að forma handrit um íslensk stjórnmál. Marglaga rað-klúður.
Í fyrirspurnatíma í þinginu á mánudag vísuðu forsætis- og viðskiptaráðherra kröfu fjármálaráðherra um að einkavæðingarferli Landsbankans verði hafið samhliða þessum kaupum bankans á TM út í hafsauga.
Þetta voru áhugaverð viðbrögð ráðherranna tveggja þegar haft er í huga að í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, sem samþykkt var árið 2017 og ríkisstjórninni hefur ekki þótt ástæða til að breyta, segir um Landsbankann:
• Stefnt er að því að ríkið eigi verulegan eignarhlut, 34-40%, í bankanum til langframa til að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu og tryggja nauðsynlega innviði þess.
• Eignarhlutur ríkisins í bankanum verður að öðru leyti seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi.
• Stefnt er að skráningu bankans á hlutabréfamarkað.
Það væri áhugavert að vita hvort það sé fleira sem ráðherrum VG og Framsóknar þykir ekki ástæða til að horfa til af þeim efnisatriðum sem fram koma í 16 blaðsíðna plaggi um eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Skýrleika skortir sárlega nú um stundir í þessum efnum.
Spá mín er: LÍ kaupir ekki TM. LÍ verður ekki seldur að hluta eða skráður á markað. Það eiga ýmsir eftir að skaðast, pólitískt og fjárhagslega, af flumbruganginum.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is