Nú er sennilega komið nóg

Nú er sennilega komið nóg

Miðvikudagur, 20. mars 2024

Ég skrifaði í síðasta pistli mín­um hér á þess­um vett­vangi um hvað það er langt í mark fyr­ir kjós­end­ur ef rík­is­stjórn­in skakklapp­ast til loka kjör­tíma­bils­ins. Í dag væru þetta 549 dag­ar. Fyr­ir­tækj­um og heim­il­um til linnu­lausr­ar armæðu.

Eft­ir ótelj­andi vand­ræðamál þar sem þing­flokk­ar stjórn­ar­inn­ar hafa skipst á að kyngja ælu, Sjálf­stæðis­menn­irn­ir þó sýnu oft­ast, þar sem fjöldi vand­ræðamála hall­ar í fjölda eyja, hólma og skerja í Breiðafirði, sem fjár­málaráðherra ger­ir nú kröf­ur til, rík­is­sjóði til handa, var ég orðinn þeirr­ar skoðunar að það væri senni­lega ekk­ert mál sem gæti sprengt þessa stjórn.

Þjóðarópera, þjóðar­höll, lista­manna­laun, hús­næðis­fé­lög rík­is­ins, ófjár­magnað inn­legg í kjara­samn­inga (þar sem nú virðist eiga að selja eign­ir til að borga rekst­ur­inn), Foss­vogs­brú, Sæ­braut­ar­stokk­ur, nýr Land­spít­ali og sam­ræmd mót­taka flótta­manna. Hval­veiðimál­in, linnu­laus­ar árás­ir á starfs­skil­yrði bænda. Reglu­verk leigu­bif­reiða. Hæl­is­leit­enda­mál­in. Orku­mál­in. Sam­göngu­mál­in. Skatta­hækk­an­ir. Furðuleg­ar þjóðlendu­kröf­ur og svona mætti lengi telja. En áfram skrölt­ir hún þó.

Svo kom sunnu­dag­ur­inn. Eft­ir sölu­ferli sem hef­ur verið í gangi síðan 17. nóv­em­ber 2023, eða í fjóra mánuði, var til­kynnt að Kvika hefði samþykkt til­boð Lands­bank­ans í TM.

At­b­urðarás­in sem þá fór af stað hef­ur verið svo­lítið eins og Guy Ritchie hefði fengið að forma hand­rit um ís­lensk stjórn­mál. Marglaga rað-klúður.

Í fyr­ir­spurna­tíma í þing­inu á mánu­dag vísuðu for­sæt­is- og viðskiptaráðherra kröfu fjár­málaráðherra um að einka­væðing­ar­ferli Lands­bank­ans verði hafið sam­hliða þess­um kaup­um bank­ans á TM út í hafsauga.

Þetta voru áhuga­verð viðbrögð ráðherr­anna tveggja þegar haft er í huga að í eig­enda­stefnu rík­is­ins fyr­ir fjár­mála­fyr­ir­tæki, sem samþykkt var árið 2017 og rík­is­stjórn­inni hef­ur ekki þótt ástæða til að breyta, seg­ir um Lands­bank­ann:

• Stefnt er að því að ríkið eigi veru­leg­an eign­ar­hlut, 34-40%, í bank­an­um til lang­frama til að stuðla að stöðug­leika í fjár­mála­kerf­inu og tryggja nauðsyn­lega innviði þess.

• Eign­ar­hlut­ur rík­is­ins í bank­an­um verður að öðru leyti seld­ur á næstu árum þegar hag­felld og æski­leg skil­yrði eru fyr­ir hendi.

• Stefnt er að skrán­ingu bank­ans á hluta­bréfa­markað.

Það væri áhuga­vert að vita hvort það sé fleira sem ráðherr­um VG og Fram­sókn­ar þykir ekki ástæða til að horfa til af þeim efn­is­atriðum sem fram koma í 16 blaðsíðna plaggi um eig­enda­stefnu rík­is­ins fyr­ir fjár­mála­fyr­ir­tæki. Skýr­leika skort­ir sár­lega nú um stund­ir í þess­um efn­um.

Spá mín er: LÍ kaup­ir ekki TM. LÍ verður ekki seld­ur að hluta eða skráður á markað. Það eiga ýms­ir eft­ir að skaðast, póli­tískt og fjár­hags­lega, af flumbru­gang­in­um.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is