Þetta er orðið of mikið EES

Tíma­bært er að end­ur­skoða aðild Íslands að EES-samn­ingn­um. Færa má gild rök fyr­ir því að samn­ing­ur­inn hafi að mörgu leyti reynst okk­ur Íslend­ing­um vel á sín­um tíma og flýtt fyr­ir ýms­um breyt­ing­um til batnaðar. Í seinni tíð hef­ur EES-samn­ing­ur­inn hins veg­ar sí­fellt orðið meira til trafala fyr­ir okk­ur með íþyngj­andi reglu­verki og kröf­um um framsal valds. Þá er ís­lensk gull­húðun sér­stakt vanda­mál.

Við gerðumst aðilar að EES-samn­ingn­um fyrst og fremst vegna þess að við átt­um að njóta sér­stakra tolla­kjara inn á innri markað ESB fyr­ir út­flutn­ingsaf­urðir okk­ar. Ekki síst sjáv­ar­fang. Hins veg­ar hef­ur ESB á und­an­förn­um árum samið um fríversl­un við ríki eins og Kan­ada, Jap­an og Bret­land með fullu toll­frelsi fyr­ir sjáv­ar­fang sem við höf­um aldrei haft í gegn­um EES-samn­ing­inn eins og Hjört­ur J. Guðmunds­son alþjóðastjórn­mála­fræðing­ur hef­ur vakið at­hygli á í skrif­um sín­um.

Við gerðumst ekki aðilar að EES-samn­ingn­um til þess að fram­selja sí­fellt meira vald yfir okk­ar mál­um til ESB. Ekki held­ur til þess að þurfa enda­laust að taka upp meira og meira íþyngj­andi reglu­verk frá sam­band­inu sem er hugsað fyr­ir millj­óna- og tug­millj­ónaþjóðir og hent­ar oft eng­an veg­inn fyr­ir okk­ar sam­fé­lag. Eins og Hjört­ur hef­ur bent á erum við sí­fellt meira í þeirri stöðu að þurfa alltaf að vera að aðlaga hags­muni okk­ar og aðstæður reglu­verki sem hannað er af öðrum og fyr­ir aðra.

Inn­an ESB sé síðan allt reglu­verk þess und­ir og vægi Íslands fari eft­ir íbúa­fjölda lands­ins.

Alltaf gengið lengra og lengra

Frétt­ir hafa reglu­lega borist af því að stjórn­sýsl­an hér á landi eigi í stök­ustu vand­ræðum með að ráða við allt reglu­gerðafarg­anið frá ESB sem ger­ir fátt annað en að aukast. Þetta er eins og að reyna að moka snjó í stór­hríð eða jafn­vel verra.

Vel á fjórða tug manna starfar í þýðing­armiðstöð ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins við að þýða reglu­verkið. Stór hluti stjórn­sýsl­unn­ar bygg­ir til­vist sína meira eða minna á aðild­inni að EES-samn­ingn­um.

Við þekkj­um líka hvernig kaup­in ger­ast á eyr­inni á Alþingi þegar reglu­verk frá ESB er ann­ars veg­ar. Höf­um við oft heyrt minnst á færi­banda­vinnu í því sam­bandi, bæði í gríni og fúl­ustu al­vöru, þar sem reglu­verkið frá Brus­sel dæl­ist inn í þingið og er yf­ir­leitt af­greitt á færi­bandi eins og hvert annað forms­atriði án nokk­urr­ar eig­in­legr­ar umræðu.

Brynj­ar Ní­els­son, sem þá var þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og er auk þess hæsta­rétt­ar­lögmaður, orðaði þetta ágæt­lega á Bylgj­unni í fe­brú­ar 2014 þar sem hann sagði: „Mér finnst ég gera lítið annað á þing­inu en að inn­leiða ein­hverj­ar regl­ur frá Evr­ópu­sam­band­inu.“ Og bætti síðan við: „Það eru alls kon­ar hlut­ir í þess­um samn­ingi sem ég hef aldrei skilið af hverju við þurf­um að fara eft­ir reglu­verki þeirra með.“

Á út­varps­stöðinni K100 í nóv­em­ber 2018 ræddi Brynj­ar líka málið og sagði: „Þetta er vand­inn við þenn­an samn­ing. Það sem ger­ist alltaf er að það er alltaf gengið lengra og lengra. Framsalið á vald­inu verður alltaf meira og meira. Þá er spurn­ing­in: Eig­um við alltaf að teygja okk­ur lengra í þessa átt eða eig­um við að spyrna niður fæti og segja: „Þetta er orðið eitt­hvað of mikið“?“ Til umræðu var þriðji orkupakki ESB sem Brynj­ar síðan samþykkti.

Verður bara meira af þessu?

Svarið við spurn­ingu Brynj­ars er ann­ars ekki flókið: Jú, þetta er orðið of mikið. Alltof mikið. Og það á bara eft­ir að verða meira af þessu.

Miklu meira. Meira reglu­gerðarfarg­an, meiri kröf­ur um framsal valds og meiri kröf­ur um að mála­flokk­ar falli und­ir EES sem aldrei var ætl­un ís­lenskra stjórn­valda að yrði. Eins og var til dæm­is með orku­mál­in. Og stjórn­völd þora ekki að spyrna við fót­um. Þau hafa bein­lín­is sagt það.

Ekki sé þannig þor­andi að beita neit­un­ar­vald­inu í EES-samn­ingn­um. Þeir í Brus­sel gætu nefni­lega orðið fúl­ir! Sig­mund­ur Davíð formaður Miðflokks­ins hef­ur rétti­lega bent á þenn­an ótta stjórn­mála­manna. Og það má ekki ger­ast! Skila­boðin til Brus­sel eru ein­fald­lega þau að senda megi hvað sem er til Íslands.

Það verði allt sam­an samþykkt.

Og nú síðast vill rík­is­stjórn­in ofan á allt annað festa í lög að allt það reglu­verk frá ESB sem inn­leitt hef­ur verið hér á landi gangi fram­ar inn­lendri laga­setn­ingu (Bók­un 35). Af þeirri einu ástæðu að það kem­ur frá Brus­sel.

Auðvitað að kröfu ESB. Frum­varp frá ut­an­rík­is­ráðherra um þetta var lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga þá. Nú stend­ur til að gera aðra til­raun til að koma því í gegn­um þingið und­ir for­ystu nýs ut­an­rík­is­ráðherra, sjálfs for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins!

Við þurf­um ein­fald­lega að skipta EES-samn­ingn­um út fyr­ir fríversl­un­ar­samn­ing og losna þannig við vax­andi upp­töku íþyngj­andi reglu­verks og framsal valds. Við fáum oft að heyra að án EES-samn­ings­ins færi allt á hliðina og að eng­inn val­kost­ur sé við hann. En eins og Hjört­ur hef­ur bent á gerðum við ná­kvæm­lega þetta í til­felli Bret­lands sem er ekki bara eitt­hvert land held­ur annað stærsta viðskipta­land okk­ar.

Skipt­um EES-samn­ingn­um út fyr­ir fríversl­un­ar­samn­ing. Og ekk­ert fór á hliðina.

Höf­und­ur er varaþingmaður Miðflokks­ins.