Við gerðumst aðilar að EES-samningnum fyrst og fremst vegna þess að við áttum að njóta sérstakra tollakjara inn á innri markað ESB fyrir útflutningsafurðir okkar. Ekki síst sjávarfang. Hins vegar hefur ESB á undanförnum árum samið um fríverslun við ríki eins og Kanada, Japan og Bretland með fullu tollfrelsi fyrir sjávarfang sem við höfum aldrei haft í gegnum EES-samninginn eins og Hjörtur J. Guðmundsson alþjóðastjórnmálafræðingur hefur vakið athygli á í skrifum sínum.
Við gerðumst ekki aðilar að EES-samningnum til þess að framselja sífellt meira vald yfir okkar málum til ESB. Ekki heldur til þess að þurfa endalaust að taka upp meira og meira íþyngjandi regluverk frá sambandinu sem er hugsað fyrir milljóna- og tugmilljónaþjóðir og hentar oft engan veginn fyrir okkar samfélag. Eins og Hjörtur hefur bent á erum við sífellt meira í þeirri stöðu að þurfa alltaf að vera að aðlaga hagsmuni okkar og aðstæður regluverki sem hannað er af öðrum og fyrir aðra.
Innan ESB sé síðan allt regluverk þess undir og vægi Íslands fari eftir íbúafjölda landsins.
Alltaf gengið lengra og lengra
Fréttir hafa reglulega borist af því að stjórnsýslan hér á landi eigi í stökustu vandræðum með að ráða við allt reglugerðafarganið frá ESB sem gerir fátt annað en að aukast. Þetta er eins og að reyna að moka snjó í stórhríð eða jafnvel verra.
Vel á fjórða tug manna starfar í þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins við að þýða regluverkið. Stór hluti stjórnsýslunnar byggir tilvist sína meira eða minna á aðildinni að EES-samningnum.
Við þekkjum líka hvernig kaupin gerast á eyrinni á Alþingi þegar regluverk frá ESB er annars vegar. Höfum við oft heyrt minnst á færibandavinnu í því sambandi, bæði í gríni og fúlustu alvöru, þar sem regluverkið frá Brussel dælist inn í þingið og er yfirleitt afgreitt á færibandi eins og hvert annað formsatriði án nokkurrar eiginlegrar umræðu.
Brynjar Níelsson, sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og er auk þess hæstaréttarlögmaður, orðaði þetta ágætlega á Bylgjunni í febrúar 2014 þar sem hann sagði: „Mér finnst ég gera lítið annað á þinginu en að innleiða einhverjar reglur frá Evrópusambandinu.“ Og bætti síðan við: „Það eru alls konar hlutir í þessum samningi sem ég hef aldrei skilið af hverju við þurfum að fara eftir regluverki þeirra með.“
Á útvarpsstöðinni K100 í nóvember 2018 ræddi Brynjar líka málið og sagði: „Þetta er vandinn við þennan samning. Það sem gerist alltaf er að það er alltaf gengið lengra og lengra. Framsalið á valdinu verður alltaf meira og meira. Þá er spurningin: Eigum við alltaf að teygja okkur lengra í þessa átt eða eigum við að spyrna niður fæti og segja: „Þetta er orðið eitthvað of mikið“?“ Til umræðu var þriðji orkupakki ESB sem Brynjar síðan samþykkti.
Verður bara meira af þessu?
Svarið við spurningu Brynjars er annars ekki flókið: Jú, þetta er orðið of mikið. Alltof mikið. Og það á bara eftir að verða meira af þessu.
Miklu meira. Meira reglugerðarfargan, meiri kröfur um framsal valds og meiri kröfur um að málaflokkar falli undir EES sem aldrei var ætlun íslenskra stjórnvalda að yrði. Eins og var til dæmis með orkumálin. Og stjórnvöld þora ekki að spyrna við fótum. Þau hafa beinlínis sagt það.
Ekki sé þannig þorandi að beita neitunarvaldinu í EES-samningnum. Þeir í Brussel gætu nefnilega orðið fúlir! Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins hefur réttilega bent á þennan ótta stjórnmálamanna. Og það má ekki gerast! Skilaboðin til Brussel eru einfaldlega þau að senda megi hvað sem er til Íslands.
Það verði allt saman samþykkt.
Og nú síðast vill ríkisstjórnin ofan á allt annað festa í lög að allt það regluverk frá ESB sem innleitt hefur verið hér á landi gangi framar innlendri lagasetningu (Bókun 35). Af þeirri einu ástæðu að það kemur frá Brussel.
Auðvitað að kröfu ESB. Frumvarp frá utanríkisráðherra um þetta var lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga þá. Nú stendur til að gera aðra tilraun til að koma því í gegnum þingið undir forystu nýs utanríkisráðherra, sjálfs formanns Sjálfstæðisflokksins!
Við þurfum einfaldlega að skipta EES-samningnum út fyrir fríverslunarsamning og losna þannig við vaxandi upptöku íþyngjandi regluverks og framsal valds. Við fáum oft að heyra að án EES-samningsins færi allt á hliðina og að enginn valkostur sé við hann. En eins og Hjörtur hefur bent á gerðum við nákvæmlega þetta í tilfelli Bretlands sem er ekki bara eitthvert land heldur annað stærsta viðskiptaland okkar.
Skiptum EES-samningnum út fyrir fríverslunarsamning. Og ekkert fór á hliðina.
Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins.