Værukærðin og kuldinn

Værukærðin og kuldinn

 

Tug­ir þúsunda íbúa á Reykja­nesi búa nú við þá stöðu að hí­býli þeirra hafa verið án hefðbund­inn­ar hús­hit­un­ar dög­um sam­an, í miðju kuldakasti. Til að bæta gráu ofan á svart þolir raf­magns­kerfið ekki það álag sem raf­magn­sofn­um fylg­ir, sé ætl­un­in að hita hús með þeim en ekki bara stök her­bergi.

Á meðan unnið er hörðum hönd­um að því að koma heitu vatni aft­ur á svæðið, við erfiðar aðstæður, er rétt að spyrja sig: hvernig lent­um við á þess­um stað? Gát­um við gert eitt­hvað bet­ur á fyrri stig­um. Hvað nú?

Í ágætri skýrslu um stöðu hita­veitna á Íslandi, sem unn­in var að beiðni orku­málaráðherra og kom út síðastliðið vor, var dreg­in upp hryggðarmynd af stöðu þeirra. Tvær af hverj­um þrem­ur veit­um eru tald­ar eiga við fyr­ir­sjá­an­leg­an vanda við að mæta eft­ir­spurn.

Fólk fékk nasaþef­inn af þessu þegar sund­laug­um var lokað í kuldatíð í fyrra. Sú ótrú­lega mynd var dreg­in upp í skýrsl­unni að í raun hafi sára­lítið verið aðhafst hvað frek­ari öfl­un heits vatns varðar í tvo ára­tugi. Það er auðvitað ótrú­legt og óboðlegt, á jarðhita­land­inu Íslandi.

Hvað fram­leiðslu raf­magns varðar er staðan ekki mikið skárri og hrein­lega grát­leg þegar horft er til þess hversu illa hef­ur gengið að koma verk­efn­um um flutn­ings­lín­ur í fram­kvæmd.

Nú um stund­ir væri til dæm­is ágætt ef Suður­nesjalína 2, sem hef­ur verið lengi í tafa­ferli, gæti flutt raf­magn inn á svæðið. Sama á við um flutn­ings­lín­ur á milli lands­hluta en veik­b­urða flutn­ingsnet veld­ur gríðarlegu tjóni og sóun í orku­kerf­inu.

Hvað heita vatnið varðar, raf­magns­fram­leiðslu og flutn­ings­kerf­in höf­um við flotið sof­andi að feigðarósi.

Þegar reglu­verk um orku­fram­leiðslu og tengd mál var formað, lög um um­hverf­is­mat, ramm­a­áætl­un og fleira, var ör­ugg­lega ekki ætl­un þeirra sem það gerðu að koma mál­um þannig fyr­ir að ill­mögu­legt væri að kom­ast áfram, jafn­vel með verk­efni sem eru í nýt­ing­ar­flokki ramm­a­áætl­un­ar. Nál­ar­auga um­hverf­is­mats­ins væri svo þröngt að orkulandið Ísland yrði orku­laust.

Við verðum að vakna gagn­vart þess­um mál­um og sjálf­ur tel ég blasa við að sér­lög um til­tekna virkj­un­ar­kosti og línu­lagn­ir séu leiðin fram á við; við nú­ver­andi ástand enda­lausra tafa verður ekki búið leng­ur.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is