558 dagar?

 

Það hall­ar í hálft ár síðan þing­flokk­ar rík­is­stjórn­ar­flokk­anna skunduðu á Þing­velli, í hópefl­is­ferð, til að ræða ekki þau mál sem helst voru flokk­un­um erfið inn­byrðis. Niðurstaða ferðar­inn­ar var að rík­is­stjórn­in yrði ein­fald­lega að halda áfram, með…

Bergþór Ólason

Það hall­ar í hálft ár síðan þing­flokk­ar rík­is­stjórn­ar­flokk­anna skunduðu á Þing­velli, í hópefl­is­ferð, til að ræða ekki þau mál sem helst voru flokk­un­um erfið inn­byrðis.

Niðurstaða ferðar­inn­ar var að rík­is­stjórn­in yrði ein­fald­lega að halda áfram, með öll erfiðu, stóru og mik­il­vægu mál­in óleyst – annað væri bara svo ábyrgðarlaust.

Stjórn­inni eru út­lend­inga­mál­in aug­ljós­lega erfiðust og því hef­ur mála­flokk­ur­inn orðið full­kom­lega stjórn­laus á síðustu árum.

Fyr­ir þrem­ur vik­um birt­ist því til­kynn­ing sjö ráðuneyta á heimasíðu stjórn­ar­ráðsins und­ir fyr­ir­sögn­inni „Heild­ar­sýn í út­lend­inga­mál­um“.

Þeir fáu sem lásu sig í gegn­um þenn­an vegg af texta sáu strax að þarna var eitt og annað sem aldrei næði fram að ganga und­ir þess­ari rík­is­stjórn. En mig grunaði ekki að það tæki liðsmenn VG bara þrett­án daga að svíkja og draga í land.

Dag­inn sem dóms­málaráðherra mælti fyr­ir frum­varpi sínu um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um spurði ég ráðherr­ann í fyr­ir­spurna­tíma hvort ann­ar eða báðir sam­starfs­flokk­anna í rík­is­stjórn hefðu gert fyr­ir­vara við af­greiðslu úr þing­flokk­um sín­um.

Dóms­málaráðherra svaraði: „All­ir flokk­ar sem mynda rík­is­stjórn Íslands samþykktu þetta frum­varp.

Rúm­um þrem­ur klukku­stund­um síðar steig Orri Páll Jó­hanns­son, þing­flokks­formaður Vinstri grænna, í pontu Alþing­is og gerði grein fyr­ir heil­um fimm fyr­ir­vör­um þing­flokks VG við frum­varpið.

Sam­eig­in­legi skiln­ing­ur og stefna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna um „Heild­ar­sýn í út­lend­inga­mál­um“ lifði sem sagt í litla 13 daga. Ná­kvæm­lega jafn marga daga og það tók Sjálf­stæðis­flokk­inn og Fram­sókn­ar­flokk­inn að leggja fram gild­andi út­lend­inga­lög eft­ir að Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, þá for­sæt­is­ráðherra, hafði stigið til hliðar úr rík­is­stjórn­inni – en hann var sá sem helst stóð í vegi fyr­ir þeirri nálg­un.

En aft­ur að hópefl­is­ferðinni á Þing­völl­um – þar sem stjórn­ar­flokk­arn­ir leituðu að er­indi sínu.

Flokk­arn­ir töldu er­indið aðallega vera að halda velli og klára kjara­samn­ing­ana. Síðar þurfti að hanga sam­an til að mæta stöðunni sem upp kom í Grinda­vík og í raun var gripið í hvert það hálm­strá sem fannst til að ráðherr­arn­ir gætu áfram setið í stól­un­um sín­um. En nú fer ís­inn að þynn­ast und­ir stól­un­um enda kjara­samn­ing­ar komn­ir í hús, í boði skatt­greiðenda, og af­leiðing­ar jarðhrær­inga komn­ar í far­veg fyr­ir Grind­vík­inga. Nýj­ustu frétt­ir benda svo til þess að stjórn­in sé sinn eig­in versti óvin­ur þegar kem­ur að bar­átt­unni við verðbólgu í land­inu og svo mætti áfram telja.

Fer þetta ekki að vera komið gott?

Er ekki bara best að Katrín segi upp­hátt að hana langi að færa sig yfir á Bessastaði og leysa þjóðina und­an þess­ar ánauð sem rík­is­stjórn­in ber með sér fyr­ir vinn­andi fólk í land­inu.

Ef ekki, þá er bara að þreyja þorr­ann í 558 daga til viðbót­ar.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is