Að æra samstarfsmenn sína

Forystumenn Framsóknarflokksins meta sig nú um stundir í stöðu til að ganga hratt um gleðinnar dyr, væntanlega í ljósi ágætrar niðurstöðu í alþingiskosningum á liðnu hausti.

Það hefur verið sérstakt að fylgjast með því hvernig samstarfsflokkar Framsóknarflokksins í ríkisstjórn kyngja dyntum ráðherra flokksins í hverju málinu á fætur öðru.

Korteri fyrir sveitarstjórnarkosningar, þann 6. maí, var til dæmis boðað til blaðamannafundar í Laugardal, þar sem skrifað var undir „viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum“. Passað var upp á að fjármálaráðherra fengi sem minnst af gjörningnum að vita, enda lýsti hann því í framhaldinu að margt væri óljóst hvað mögulegan framgang málsins varðar og áætlað framlag Reykjavíkurborgar væri varla upp í nös á ketti.

Næst kynntu framsóknarmenn áform sín um að stórauka niðurgreiðslur úr ríkissjóði til þeirra sem stunda kvikmyndagerð. Aftur fann fjármálaráðherra sig í þeirri stöðu að þurfa að benda á hið augljósa, viðbótarkostnaður vegna áætlana Framsóknar var ófjármagnaður með öllu.

Í síðustu viku var svo enn boðað til blaðamannafundar. Tilefnið virtist vera að kynna áform formanns Framsóknarflokksins um að byggja með eigin höndum 35 þúsund íbúðir á næstu 10 árum.

Þegar betur er að gáð og rammasamningurinn lesinn, virðist eitt meginhlutverk innviðaráðherra vera að yfirfara stöðugreiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og „gera eftir atvikum tillögur um breytingar á fjárlögum/fjármálaáætlun“ eins og fram kemur í viðauka A4.

Þótt mörgu hafi verið snúið á haus til að friða framsóknarmenn eftir kosningar, meðal annars með óþarfri uppstokkun stjórnarráðsins, sem kostaði hundruð milljóna, þá er alveg nýtt að það sé hlutverk innviðaráðherra að leggja fram breytingar á fjárlögum eða á fjármálaáætlun hvers tíma. Ætli Bjarni viti af þessu?

Til að því sé haldið til haga, þá var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára samþykkt þann 14. júní síðastliðinn, nánar tiltekið fyrir 35 dögum síðan. Þar var engin merki að sjá um þau áform sem framsóknarráðherrarnir kvitta nú upp á og engar breytingartillögur. Það er ekki alltaf meining í framsóknarpólitíkinni.

Allt ber þetta að sama brunni. Framsóknarmenn boða aðgerðir sem engin innistæða er fyrir, né heldur fjárheimildir til framkvæmda. Setja samstarfsflokkana (iðulega Sjálfstæðisflokkinn) í þá stöðu að þurfa að spyrna við fótum gagnvart ófjármögnuðum áformum nú eða lyppast niður, sem iðulega verður raunin.

Er þetta merki um að Framsókn sé af heilum hug í núverandi stjórnarsamstarfi? Eða er þetta merki um að Framsókn ætli að láta á reyna uns brestur og vippa sér þá til vinstri eins og í höfuðborginni? Það leiðir tíminn einn í ljós.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 19. júlí, 2022.