Að lokum

Það er svoldið sérstakt að sitja við tölvuna og skrifa minn síðasta pistil hér á þessa síðu Morgunblaðsins en hann birtist sama dag og móðir mín er jarðsungin. Svona er lífið, það er fullt af brekkum sem eru mis brattar og stundum á fótinn eða undan fæti. Þetta hefur verið ánægjulegur tími sem ég hef haft til að skrifa hér á síður Morgunblaðsins en nú tekur eitthvað annað við og aðrir taka við þessum 2.700 slögum sem þessi gluggi leyfir. Þeir sem nú taka við keflinu á Alþingi verða vonandi jafn heppnir og ég með allt það góða fólk sem ég hef fengið að kynnast og vinna með. Ég á eftir að sakna margra. Margir þingmenn taka nú sæti í fyrsta sinn og óska ég þeim innilega til hamingju með það. Ég veit að þeir ganga til sætis í þingsalnum stoltir og það mega þeir sannarlega vera því það er einstakt að fá tækifæri til að sitja á Alþingi. Þeirra bíður líka hópur af einstöku fólki, starfsfólki Alþingis.

Það hafa verið forréttindi að fá að vinna með þessum einstaklingum í 12 ár. Alltaf reiðubúin að liðka til og hjálpa og það þarf færni til að sinna 63 ólíkum þingmönnum. Starfsfólki Alþingis þakka ég sérstaklega. Hinir fjölmörgu nýju þingmenn eiga eftir að „læra á þingið“ og margt er að læra. Umfram allt þurfa þeir að vera samkvæmir sjálfum sér og reiðubúnir að læra, því það fæðist enginn í þetta sérstaka starf. Ég held það sé líka gott að þeir sem fyrir eru á fleti hlusti á þá nýju og e.t.v. er ástæða til að breyta einhverju í starfsháttum og því ekki að nota tækifærið núna? Næsta kjörtímabil verður snúið af mörgum ástæðum þar sem byggja þarf upp eftir Covid, áskoranir fram undan á vinnumarkaði o.fl. Þær áskoranir sem bíða munu þingmenn vonandi nálgast af skynsemi en ekki einhvers konar popúlisma.

Auglýsingamennskan er mikil í stjórnmálum og getur oft skilað tímabundnum ávinningi en það er hagur þjóðarinnar sem allir verða að setja í fyrsta sæti þegar á hólminn er komið. Það eru ekki bara áskoranir í efnahagsmálum heldur þarf að finna lausnir í mörgum stórum málum, s.s. loftslagsmálum og heilbrigðismálum. Þar þarf líkt og annars staðar að nálgast málin með skynsemi og rökum. Í öllum þessum áskorunum eru tækifæri sem við Íslendingar verðum að nýta. Eins og ég sagði í upphafi þessa pistils þá eru alltaf brekkur í lífinu og lendum við einhvern tíma á langri og brattri brekku en þá skiptir máli að vera trúr sjálfum sér og þekkja sjálfan sig og vona ég að nýir þingmenn sýni þrautseigju og berjist upp brekkuna. Við eigum að vera stolt af því að vera Íslendingar og passa fullveldið og söguna. Slögin 2.700 eru að verða búin og vil ég að lokum þakka öllum þeim sem ég hef kynnst á löngum ferli í stjórnmálum og vona að þingmönnum vegni vel sama hvar í flokki þeir eru.

 

Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi alþingismaður Miðflokksins

gbsveinsson@gmail.com 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 27. september, 2021