Aðför að heilsu kvenna

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, tók til málks í störfum þingsins í dag og ræddi um mikilvægi þess að hlusta á sérfræðinga um að skimanir á leghálskrabbameinssýnum verði færðar aftur hingað heim til Íslands.  Það er óásættanlegt að sú þekking og starfsemi sé flutt úr landi.

"Oft hefur verið haft á orði á meðan á þessum faraldri hefur staðið sem nú geisar, hversu nauðsynlegt sé að hlusta á sérfræðinga og láta mál í þeirra hendur. En þetta á ekki heldur við í öllum tilfellum og öllum sjúkdómum vegna þess að eins og menn vita var hér rétt fyrir áramótin tekið af Krabbameinsfélaginu verkefni sem varðar skimun á brjóstum kvenna og leghálsprufum án þess að fyrir lægi í raun og veru hverjir ættu að taka við. Þetta átti að setja inn á Landspítalann án fyrirvara en á ögurstundu var starfsemin flutt til Danmerkur. Konur hafa ekki viljað una þessu og á hálfum mánuði, eftir ummæli sem sérfræðingur einn í krabbameinslækningum lét sér um munn fara nýlega, hafa yfir 12.000 manns gengið til liðs við grasrótarsamtök eða hóp sem heitir Aðför að heilsu kvenna. Reynslusögur sem birtast á þessum vef lýsa ótta, óöryggi og áhyggjum kvenna og lýsa því hvernig þær hafa margar þurft að bíða vikum saman eftir úrskurði úr sínum prófum, sem er algerlega óþolandi. Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hefur komið fram og sagt að óásættanlegt sé að þessi þekking og starfsemi sé flutt úr landi. Ef menn eru enn þá að tala um að hlusta á sérfræðinga held ég að núna væri góður tími fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra að brjóta odd af oflæti sínu og færa skimanir á brjóstamyndatökum og skimanir á leghálskrabbameinssýnum aftur til Íslands."

Upptöku af ræðu Þorsteins í þingsal má sjá hér