Áhrif kolefnisgjalds á eldsneytisnotkun heimilanna

 

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, tók í dag til máls í óundirbúnum fyrirspurnum og beindi hann fyrirspurn sinni að umhverfis- og auðlindaráðherra.  Birgir vitnaði m.a. í nýja skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og kallaði eftir frekari rökstuðningi fyrir því að kolefnisgjald sé lagt á til að draga úr útblæstri.

Birgir:

"Herra forseti. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur skilað skýrslu um áhrif kolefnisgjalds á eldsneytisnotkun heimilanna. Niðurstaðan er sú að rökstyðja þurfi betur hvers vegna kolefnisgjaldið er lagt á til að draga úr útblæstri. Þau gögn sem vísað er til í skýrslunni benda til að gjaldið þurfi að vera mjög hátt til að virka. Þá þyrfti jafnframt að skýra frá því til hvaða aðgerða verði gripið til að koma fólki milli áfangastaða. Skatturinn bítur enn fremur á efnalítið fólk, sem er líklegra til að nota bifreiðar minna en það sem hefur efni á að gera út bifreið.

Það kemur margt fróðlegt fram í þessari skýrslu og satt best að segja er ég svolítið hissa á því að hún hafi ekki fengið meiri athygli. Á bls. 7 í skýrslunni segir t.d. frá áhrifum kolefnisskatts á Írlandi, að kolefnisskatturinn hafi ekki breytt notkun fólks á eldsneyti þar í landi.

Síðan er rætt um efnahagsleg áhrif kolefnisskatta, að þau séu margslungin og miklu skiptir hvað ríkið geri við tekjur af skattinum. Ef ráðstöfun skatttekna er ekki tekin með í reikninginn er niðurstaða flestra sú að landsframleiðsla og atvinna minnki eftir að kolefnisgjald er lagt á. Skatturinn hefur meiri áhrif á lífskjör láglaunafólks en annarra og kolefnisgjöld hafa meiri áhrif á neyslu og kjör hjá fátækum heimilum. Svo segir á bls. 8 í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Þegar á heildina er litið má sjá að kolefnisgjöld hafa hingað til ekki haft mjög mikil áhrif á neyslu fólks.“

Á bls. 13 segir:

„Ef ætlunin er að draga úr neyslu heimila á eldsneyti um 10% þarf verð þess að hækka um 10/0,35 eða um tæp 30%.“

Það sjá allir hvaða áhrif það hefði á efnahag heimilanna og efnahagsmálin almennt.

Hæstv. umhverfisráðherra. Er þessi skýrsla ekki áfellisdómur yfir kolefnisgjaldastefnu þessarar ríkisstjórnar?"

Hér má sjá svar ráðherra og umræðuna í heild sinni