Almenningur njóti ávaxtanna

Miðflokkurinn er afl sem hefur lagt áherslu á að ríkið hagræði, minnki flækjustig og geri skattborgara að bestu eftirlitsaðilum með ríkisvaldinu. Það er markmiðið með því að bjóða fólki upp á þátttöku í góðum árangri í rekstri ríkissjóðs. Besti vörsluaðili fjármagns er og verður ávallt almenningur og íslensk fyrirtæki, því viljum við lágmarka skatta. Lækkun skatta hvetur, hækkun letur.

Við í Miðflokknum köllum eftir því að báknið minnki. Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur ríkið stækkað og það hressilega. Á 138. löggjafarþingi 2009-2010, sbr. þingskjal nr. 659, svarar þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fyrirspurn frá núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni. Fyrsta spurning þingmanns Sjálfstæðisflokksins, flokks sem nú hefur starfað of lengi í meirihluta með Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, gekk út á það að fá upplýsingar um fjölda stöðugilda á aðalskrifstofum ráðuneyta á árunum 1995 til og með 2009.

Til að gera langa sögu stutta fjölgaði í forsætisráðuneytinu um 40% frá 1998 til og með 2008. Á sama tímabili fjölgaði um 43% í utanríkisráðuneytinu, 52% í félags- og tryggingaráðuneytinu, 40% í heilbrigðisráðuneytinu, 64% í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og 39% í umhverfisráðuneytinu svo eitthvað sé nefnt. Hér er aðeins um að ræða fjölgun stöðugilda á aðalskrifstofum ráðuneyta rétt fyrir hrun fjármálakerfisins þegar allt eftirlit hins opinbera virkaði ekki. Hverjir voru þá í stjórn á þessu tímabili? Framsókn, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta voru og eru enn kerfisflokkar. Sé litið á ríkisreikning og mannauðsmál ráðuneyta á Íslandi kemur í ljós að stöðugildum fjölgaði milli 2019 og 2020 um 2% en launakostnaður jókst á sama tíma um 22%. Hvað kemur til? Fundu menn gull?

Sé litið til framangreindrar fyrirspurnar Kristjáns Þórs Júlíussonar voru stöðugildi umhverfisráðuneytisins um 30 árið 2009. Stöðugildi umhverfisog auðlindaráðuneytisins í dag, reyndar ásamt undirstofnunum, eru orðin, m.v. 2020, 592. Það eru fleiri stöðugildi en hjá forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Stöðugildum milli þessara ára hjá félags- og barnamálaráðherra fjölgaði um 24% og launakostnaður hefur aukist þar um 31%. Hér ætti vel við glænýtt kjörorð fyrir Framsókn: Kjósum B fyrir báknið en ekki BUGL!

Sólkonungurinn Loðvík 14, sá er byggði Versali fyrir utan París og lifði í vellystingum þar, hefði tæpast gert betur. Elítan fylgdi svo öll með enda þurfti einhvern til að dansa við. En kæru kjósendur, er ekki tími til kominn að taka á þessu? Báknið burt. Börn og BUGL eiga betra skilið.

 

Danith Chan skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.  Danith er með LLM-meistarapróf í lögfræði frá HÍ og MBA í viðskiptafræði frá HR.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 21. september, 2021