Atvinnulíf

Atvinnuleysi jókst verulega á Íslandi eftir að veirufaraldurinn hófst.  Stórauknum útgjöldum ríkissjóðs verður ekki mætt nema með aukinni verðmætasköpun og fjölgun starfa.

En það má ekki gleymast að atvinnuvegir landsins voru lentir í verulegum vanda áður en faraldurinn hófst.  Sá vandi er nú enn meira ákallandi en áður.

Þetta átti ekki hvað síst við um litlu og meðalstóru fyrirtækin sem stóðu frammi fyrir mikilli kostnaðaraukningu með hækkandi álögum og auknu íþyngjandi regluverki. Reyndar er það orðið svo að það er vart hægt að stofna eða reka fyrirtæki á Íslandi án þess að ráða sérfræðinga bara til að fást við kerfið.  Enn streyma inn reglur sem lítil fyrirtæki á Íslandi þurfa að fylgja þótt þær séu sniðnar að alþjóðlegum stórfyrirtækjum.  Slíkt er gríðarleg hindrun gegn framtaki og sköpun þeirrar atvinnu og verðmæta sem samfélagið þarf á að halda.

Framtíð íslensks landbúnaðar hafði verið teflt í tvísýnu áður en faraldurinn hófst.  Sótt var að greininni úr mörgum áttum samtímis.  Faraldurinn hefur svo enn aukið á vanda greinarinnar en bændur hafa ekki fengið stuðning eins og aðrar stéttir.  Miðflokkurinn er búinn að leggja fram stærstu og róttækustu áætlun um eflingu íslensks landbúnaðar sem sést hefur a.m.k. áratugum saman.

Iðnaðurinn hefur búið við viðvarandi óvissu.  Ferðaþjónustan, stærsta útflutningsgreinin, stendur frammi fyrir hættu á að lenda í því sem við horfðum upp á fyrir áratug þegar fyrirtæki voru tekin af fólkinu sem hafði byggt þau upp og seld til annarra.  Þar með voru þeir sem höfðu lagt allt sitt undir áður en áfallið reið yfir sviptir tækifærinu til að njóta efnahagsuppsveiflunnar.  Miðflokkurinn mun ekki leyfa því að gerast.

Miðflokkurinn hefur barist fyrir leiðum sem verja og verðlauna þá sem hafa lagt mikið á sig til að auka verðmætasköpun samfélagsins. Það eru leiðir sem taka mið af samhenginu milli verðmætasköpunar og velferðar.  Við þurfum öll á því að halda að íslenskt atvinnulíf nái sér á strik en það gerist ekki af sjálfu sér.  Það þarf stefnu og framtak og það býður Miðflokkurinn upp á.