Báknið sýnir klærnar

Sveitungar, bændur, fjallmenn og gangnamenn, nú er vá fyrir dyrum. Núna þarf að bregðast við. Smíða sverð úr plógjárnum og hefja á loft. Fáum vefst það lengur hvort áform hæstvirts ókjörins ráðherra um hálendisþjóðgarð séu til góðs eða ills og hverjum slíkar áætlanir munu þjóna. Þeir öfgar sem einkenna stefnu núverandi ríkisstjórnar eru áhrif erlendis frá sem eru rétt að hefja sína göngu hér á norðurhjara. Okkar góða kjöt og mjólk virðist komið á válista víða með misfleygum hugmyndum og rökum og því rökrétt að vegið sé að því landnæði sem þarf til framleiðslunnar. Öllu á að breyta og byltingin er rétt að byrja.


Hví má ekki byggja á þeim innviðum sveitarfélaga sem þegar eru til staðar og veita fé í þá. Þar sem grettistaki hefur verið lyft með hreinræktuðum áhuga og dugnaði heimafólks sem fer fyrir fjárvana stofnunum og félagasamtökum. Nei bákninu virðist fyrirmunað að veita fé út fyrir sitt áhrifasvæði því þá er hætta á að vinavæðingin gjaldi fyrir það með sína bragga og strá. Nei öllu á að bylta, hefðbundin áhrifasvæði og stjórnarform endurskilgreind sem leiðir til lýðræðislegrar geldingar á heimasvæðum, ringulreiðar og áhrifaleysis. DEVIDE ET IMPERA, að deila og drottna var ráðstjórnarbrella Rómar hér forðum. Þá er áhrifasvæðum skipt upp í vanmegna einingar sem mega sín lítils gegn miðstjórnarbákninu.
Nú þurfum við Sigríði í Brattholti ekki vegna þess að menn vilji virkja Gullfoss, heldur stoppa hann upp, verðmerkja og loka inni í glerskáp ríkiskapitalismans. Lög verða sett og þá er bannað að fleygja sér í hann. Milljarðastríðið um þjóðlendurnar var aðeins formekkurinn að því sem koma skal. Útvíkkun laga um náttúruvernd aðeins annar þáttur. Nú þurfa allir að endurskoða hollustu sína. Framherjar öfgastefnunnar skrumskæla vísindin í ofsasókn fyrir nýjum alþjóðavæddum heimi.


Undarleg umskipti eru að eiga sér stað þar sem náttúran og öryggi hennar og hagsmunir eru settir ofar öryggis og hagsæld mannanna barna. Réttindi dýra ofar réttinda mannfólks. Þessar hugmyndir gerjast í brjóstum innikatta úr stórborgum í gulum regnkápum sem glatað hafa sambandi sínu við raunveruleika veraldar. Þeir skreyta sig með vanhugsuðum hugsjónum og dyggðamonti sem þola ekki brotsjó lífsins og bregðast þegar mikið ber við. Fæðuöryggi og orkudreyfing sem hægt er að stóla á í fárviðrum tilverunnar fellur hratt niður forgangslistann ásamt ráðstjórnar og eignarrétti fólks yfir eigum sínum og áhrifasvæðum.


Sofnum ekki á verðinum, eflum andspyrnuna því hvar er betri liðsöfnuð að finna í baráttunni um Ísland, fullveldið, einkaréttinn og frelsið en einmitt á landsbyggðinni. Þeim fer fjölgandi á þéttbýlli svæðum sem virðast gegnsýrðir af erlendum áhrifum og innrætingu byltingarsinna. Heimsendir er ekki í nánd nema kannski sá sem er heimatilbúinn. Báknið sýnir klærnar en nú er mál að við sýnum því tennurnar.


Höfundur:  Magnús Haraldsson, sem situr í stjórn Miðflokksins í Rangárþingi

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 6. febrúar, 2020