Bensínstöðvadíll borgarstjóra

Í dag eru 46 skráðar bensínstöðvar innan marka Reykjavíkurborgar og eru þá meðtaldar smærri sjálfsafgreiðslustöðvar. Heildarflatarmál lóðanna er um 141 þúsund fermetrar eða um 14 hektarar. Á fundi borgarráðs 24. júní sl. lagði borgarstjóri fram samninga sem hann hafði handsalað við olíufélögin um að afhenda þeim endurgjaldslaust valdar lóðir sem undir bensínsstöðvunum eru. Heildarflatarmál þeirra lóða eru rúmir 6,5 hektarar. Hér er um fullkominn gjafagjörning að ræða. Borgarstjóri er að gefa frá Reykjavíkurborg allan byggingarétt á lóðunum sem á heima inni í eignarsjóði og síðar borgarsjóði. Samningarnir eru tvíþættir. Í fyrsta fasa er um að ræða 12 lóðir sem olíufélögin Olís, N1 og Skeljungur ásamt Högum, Festi og Krónunni fá endurgjaldslaust. Þessi félög ásamt Dælunni og Atlantsolíu hafa jafnframt gert framtíðarsamninga um sama efni þegar hin svokallaða borgarlína fer að taka á sig mynd því gjafagjörningurinn nær til þeirra bensínstöðva sem að henni liggja. Þar felast gríðarlega dulin framtíðarverðmæti sem ógerningur er að verðmeta nú.

Þær lóðir sem eru nú „að fara í vinnu“ fyrir þessi fyrirtæki eru Álfheimar 49, Álfabakki 7, Egilsgata 5, Ægisíða 102, Hringbraut 12, Stóragerði 40, Skógarsel 10, Elliðabraut 2, Rofabær 39, Birkimelur 1, Skógarhlíð 16 og Suðurfell 4.

Komið hefur fram að virði byggingaréttar á lóðinni á Ægisíðu 102 er 2 milljarðar. Sú lóð er 0,6 hektarar og er því um 10% af þeim lóðum sem borgarstjóri er að gefa nú. Því má áætla að heildarvirði byggingaréttar á lóðunum tólf losi um 20 milljarða. Þá eru framtíðarsamningarnir ótaldir sem eiga eftir að hlaupa á tugum milljarða. Ég tel að svona samningar séu ólöglegir því ekki er hægt að mynda eignar- eða hefðarétt á leigulóð. Enda vitnar Hæstaréttardómur nr. 240/2003, Skeljungur hf. gegn Sveitarfélaginu Hornarfirði vitni um það. Í dómsorði kemur fram: „S hf. leigði lóð af sveitarfélaginu H til tuttugu ára. Að loknum leigutíma var lóðin leigð hlutafélaginu áfram til fimm ára. Að þeim tíma liðnum náðist ekki samkomulag um áframhaldandi leigurétt S hf. á lóðinni. Var sveitarfélaginu heimilað að fá S hf. borið út af lóðinni með bensínstöðvar- og veitingahús sitt og öllu, sem því tilheyrði, þar með töldum olíu- og bensíntönkum í jörðu.“ Það er ljóst að þennan gjörning þarf að rannsaka og skoða. Því ætla ég að flytja tillögu á borgarstjórnarfundi sem verður haldinn 1. febrúar nk. sem er svohljóðandi: „Borgarstjórn samþykkir að Innri endurskoðanda verði falið skoða og leggja mat á lögmæti samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin sem lagður var fram í borgarráði 24. júní 2021. Verði þeirri skoðun lokið fyrir 1. maí nk.“ Til grundvallar liggja samningarnir sem finna má á þessari slóð (stytt): http://mbl.is/go/9jef7 og áðurnefndur hæstaréttardómur.

Ekki undir neinum kringumstæðum getur sveitarfélag gefið frá sér eigur sínar, land eða auðlindir. Það er ekki borgarstjórans í Reykjavík að taka þátt í að umbreyta olíufélögunum í fjárfestingaog/eða fasteignafélög þegar stefna stjórnvalda er orkuskipti í samgöngum.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. janúar, 2022.