Blekkingar á báðar hendur í Mosfellsbæ

Í bæjarblaðinu Mosfellingi á dögunum birtist fyrirsögnin „Afgangur af rekstri bæjarins áætlaður um 350 milljónir“.  Þetta er rétt sé litið til þeirrar fjárhagsáætlunar sem Mosfellsbær tekur til síðari umræðu í dag í sveitarstjórn skáldsins.

Hvað er látið ósagt í skattamálum? 

Þegar litið er til uppgjörs sveitarfélaga, rétt eins og annarra félaga, ber að líta til beggja handa þar sem önnur tekur á tekjuhliðinni en hin á gjaldahliðinni. 

Hjá Mosfellsbæ hefur þessu verið hagað á þann hátt að haldið hefur verið að atvinnulífinu í bænum hámarki fasteignagjaldaprósentu á atvinnuhúsnæði, þ.e. á árunum 2012 til og með 2018.  Eftir ábendingar um þetta óréttlæti hafa „aðalsnyrtifræðingar“ meirihlutans tekið upp á því að lækka álagningarprósentuna um brot af því sem til þarf svo jafna megi hækkun gjaldstofnsins á milli ára. 

Þannig hefur meirihlutanum tekist að ná að hala inn um 13% raunhækkun fyrir árið sem er að líða og reikna má með, þrátt fyrir fögur orð um lækkun álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, að raunhækkun þessara sömu gjalda verði engu að síður um 10% sé tekið tillit til 2,5% ætlaðrar verðbólgu árið 2020. Ef samdrátturinn verður meiri, nú þá mun raunhækkun fasteignagjaldanna hækka enn frekar.

Ágætt dæmi

Til að setja þetta í samhengi má segja að sá sem er með atvinnueign sem er metin að fasteignamati um 50 milljónir fyrir gjaldaárið 2019 megi reikna með að þrátt fyrir að fasteignagjaldsprósentan fari úr 1,600% (2019) í 1,585% (2020) muni fasteignaskatturinn fara úr því sem var 2019, um kr. 800 þúsund, í um kr. 875 þúsund (ath. fyrirvari um að hér er unnið með meðaltöl). Þá er ekki tekið tillit til þess að við þetta bætist vatnsgjald, fráveitugjald og lóðaleiga. Þetta er því engin lækkun þó slíkt sé látið í veðri vaka. Þetta er og verður hækkun að raunvirði! Hvers vegna reyna bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ ekki að koma til móts við atvinnurekendur, sem skapa hér vinnu, í stað þess að taka þetta með þessum hætti til sín?

Hvað er látið ósagt í skólamálum?

Þegar litið er á þjónustu eins og þjónustu við foreldra og börn í Mosfellsbæ er nærtækast að meta framlög bæjarins til grunnskóla. Í því efni er þá rétt að bera sig saman við sambærilega grunnskóla, t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu. Þarna lítum við til gjaldahliðarinnar, þjónustu sem bænum ber lagaleg skylda til að sinna og hlúa að. Þar má sjá að framlag (sé litið á tölur frá 2018) Mosfellsbæjar, m.t.t. svokallaðrar innri leigu, er langsamlega það lægsta á hvern nemanda á höfuðborgarsvæðinu en fyrir árið 2018 er það allt að 12% lægra á hvern nemanda en gerist og gengur í öðrum skólum af sambærilegri stærð og skólarnir Varmárskóli og Lágafellsskóli. Ekki verður séð að fyrirliggjandi tillögur meirihlutans í dag muni koma nægjanlega á móti þessu til að auka þjónustustig við börn og barnafólk í bænum svo einhverju nemi.

Þarna er ekki við stjórnendur skólanna að sakast og alls ekki við kennara, nemendur eða foreldra. Þetta er stefna meirihlutans í Mosfellsbæ og kemur til vegna óstjórnar um árabil í rekstri bæjarins.

„Snyrtifræðingar“ Mosfellsbæjar

Í sama mund og „snyrtifræðingar“ bæjarins, þ.e. fulltrúar meirihlutans í Mosfellsbæ, leitast við að blekkja kjósendur sína trekk í trekk er hér leitast við að benda á staðreyndir. Reyndar hefur venjan verið að þegar slíkt kemur fyrir í bæ skáldsins taka sig saman riddarar götunnar og rægja þá sem benda á að bæjarstjórinn er hvorki vel málaður né vel klæddur þegar kemur að fjármálum og skattheimtu.

Meirihlutinn í Mosfellsbæ er því að blekkja almenning með því að vísa til þess að bærinn sé að skila frábæru búi með um 350 milljónir í „hagnað“ þar sem fjármagnsgjöldin nema um 628 milljónum og heildartekjur eru um 13,4 milljarðar skv. áætlun. Þetta er allt tekið að „láni“ frá atvinnurekendum og börnum og barnafólki bæjarins sem eiga betra skilið.

Það er ömurlegt til þess að hugsa að metnaðarleysi meirihlutans í Mosfellsbæ sé með þeim eindæmum sem raun ber vitni.

  

Höfundur:  Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og 1. varaforseti bæjarstjórnar

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 27. nóvember, 2019