Ég flutti tillögu á borgarstjórnarfundi 5. október sl. um að borgarstjórn hafnaði styrk frá Bloomberg Philanthropies, í eigu Michaels R. Bloombergs, upp á tæplega 2,2 milljónir bandaríkjadala, eða sem nemur um 300 milljónum íslenskra króna.
Byggði ég tillöguna á efasemdum mínum um að viðtaka fjármagnsins ætti sér lagastoð og ekki væri grundvöllur fyrir að taka við greiðslunum þar til hægt væri að sýna fram á á hvaða lagagrunni væri byggt. Á fundi borgarráðs 1. júlí var lagt fram bréf borgarstjóra þar sem borgarráði var tilkynnt að Bloomberg Philanthropies yrði bakhjarl Reykjavíkurborgar í stafrænni vegferð hennar. Enn liggur inni ósvöruð fyrirspurn frá mér sem ég lagði fram 12. ágúst um þetta efni.
Það á ekki að vera flókið að svara svo einfaldri fyrirspurn ef lagagrundvöllurinn er tryggur. Tekjustofnar sveitarfélaga á Íslandi eru skýrt afmarkaðir í sveitarstjórnarlögum. Þeir eru skattar á íbúa og fyrirtæki, greiðslur úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og þjónustutekjur. Ekki er um aðra tekjustofna að ræða nema ef um arð dótturfélaga er að ræða. Jafnræði og gegnsæi er lykilatriði í allri stjórnsýslu og rekstri sveitarfélaga.
Íslensk sveitarstjórnarlög eru í fullu samræmi að þessu leyti við sveitarstjórnarlög í öðrum norrænum ríkjum. Það liggur í hlutarins eðli að setja verður greiðslum frá erlendum aðilum, hvort sem er utan eða innan EES, mjög þröngar skorður. Hér erum um að ræða sveitarfélag sem lýtur opinberum rétti. Því er ljóst að ef opnað yrði á að erlent fjármagn geti runnið óheft inn í rekstur sveitarfélaga í skiptum fyrir þjónustu, gæði og áhrif þá setjum við sveitarfélög í dæmalausa stöðu. Svo er í þessu tilfelli, því á móti gjafafé upp á tæpar 2,2 milljónir bandaríkjadala, eða sem nemur 300 milljónum íslenskra króna, leggur borgarsjóður fram 10 milljarða á þremur árum í það sem er kallað stafræn umbreyting. Á meðan borgarsjóður skuldar 140 milljarða og er rekinn á lánum er ljóst að þessi ráðstöfun er óeðlileg og nær langt út fyrir lögbundið hlutverk Reykjavíkur sem á að sinna lögbundinni þjónustu og grunnþjónustu. Mjög strangar skorður eru settar um fjármagnsflutninga á milli landa.
Nú þegar hef ég sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu erindi til að skorið verði úr um hvort það samræmist íslenskum lögum að Reykjavíkurborg taki á móti gjafafé frá erlendum einkaaðila með heimilisfesti í Bandaríkjunum af fyrrgreindri stærðargráðu sem skal renna inn í borgarsjóð og síðan í almennan rekstur borgarinnar.
Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur og borgarfulltrúi Miðflokksins
Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 12. október, 2021