Borgarstjóri gegn börnum?

Borgarstjóri og skósveinar hans lögðust undir feld og sögðust hafa velt við hverjum steini (hvernig svo sem það atvikast undir feldinum) til að ná fram hagræðingu í rekstri Reykjavíkurborgar. Skemmst er frá því að segja að fjallið tók jóðsótt og lítil mús fæddist.

Þegar sá sem hér skrifar sá fyrirsögn þess efnis að borgarstjóri og trygga varadekkið hans ætluðu að ganga til 92 hagræðingaraðgerða, þá giskaði undirritaður á að sparnaðurinn næmi 7-11 milljörðum. Þegar fréttin var opnuð blasti við að litla sparnaðarmúsin var upp á rúman milljarð. Rúman milljarð þegar halli líðandi árs er fimmtán slíkir.

Það tók borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins ekki nema liðna helgi og mánudaginn til að setja saman sparnaðartillögur sem nema sjö milljörðum. Og það án þess að leggja til sparnað gagnvart fyrirhugaðri brjálæðisfjárfestingu í borgarlínu Samfylkingarinnar – sem er í sjálfu sér sérstakt rannsóknarefni, meira um það síðar.

En hvers eiga börn í Reykjavík að gjalda? Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn ákváðu að best væri að ráðast að börnunum til að hysja upp um sig skuldabuxurnar.

Sparnaður í mat fyrir grunnskólabörn. Fækkun leikskólakennara. Lokun Sigluness. Stytting þjónustutíma félagsmiðstöðva og svo mætti áfram telja.

Á sama tíma á ekki að snerta varnarvegg borgarstjórans sem samanstendur af fjöldanum öllum af upplýsingafulltrúum og öðrum í miðlægri stjórnsýslu sem hindra að fjölmiðlar nái af honum tali – nema þegar honum býðst að klippa borða auðvitað. Svo skal áfram halda alls konar veislur og fara í alls konar utanlandsferðir, allt á kostnað borgarbúa – þar verður sko ekki skorið við nögl eins og með skólamat barnanna.

Svo verður væntanlega tryggt að hávaðasömustu foreldrarnir með greiðastan aðgang að fjölmiðlum fái pláss fyrir sín börn á leikskóla þannig að sljákki í mótmælunum. Þannig geti borgarstjóri og varadekkið slegið sér á brjóst fyrir að hafa leyst vandann þegar staðan hefur líklega aldrei verið verri fyrir börnin í Reykjavík.

Varadekkið Einar Þorsteinsson sagði það svo „popúlisma“ inntur eftir því af hverju hann og félagar hans í ráðhúsinu lækkuðu ekki laun sín til að mæta eigin óráðsíu undanfarinna ára. Hann sá sömuleiðis ástæðu til að halda því til haga að alls ekki yrði farið í að fresta eða hætta við fjárfestingu borgarinnar í borgarlínunni. Nei, það er auðvitað betra að skera niður skólamat barnanna.

En ég geri að tillögu minni að formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra, geri borgarbúum greiða og bjóðist til að fresta öllum fjárfestingaráformum sem tengjast borgarlínu. Það væri sparnaður sem gagn væri að.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu, 7. desember 2022.