Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirunnar

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, ræddi í störfum þingsins um efnahagslegar afleiðingar kórónuveirunnar hér á landi:

 Ein af afleiðingum þess efnahagsástands sem við búum nú við út af kórónuveirunni lýsir sér í því að krónan gaf skart eftir á síðasta ári. Þannig var verðmæti bandaríkjadals í september síðastliðnum 139 kr., í janúar 129 kr. og nú um stundir 125 kr. Krónan hefur styrkst um 11% frá því í septemberlok í fyrra. Þegar slík styrking verður byrja menn að spyrja um vöruverð á Íslandi, hvers vegna það lækki ekki. Yfirleitt hefur svarið verið á þá lund að það er eins og kaupmenn fái vörur með haust- og vorskipi líkt og til forna. Þeir eru alltaf að selja gamlar birgðir. Ég væri ekki til í að kaupa appelsínur frá því í fyrra núna. En búið er að spá því að verðbólgan sem nú er í kringum 4% verði í þeim hæðum út þetta ár. Það er í sjálfu sér óskiljanlegt, herra forseti, þegar við tökum tillit til þess að krónan er að styrkjast svo mikið sem raun ber vitni. Verslunin hefur bent á að launahækkanir hafi mikið að segja. Í þeirri verslun sem ég geri mín innkaup í þarf ég yfirleitt að afgreiða mig sjálfur vegna þess að búið er að taka nánast alla kassa úr sambandi. Ég veit ekki hvort róbótarnir hafa fengið svona mikla launahækkun að það komi í veg fyrir lækkun á verði til almennings.
Þetta hefur hliðaráhrif.  Í dag eða í gær tilkynnti ein stærsta verslunarkeðja á Íslandi, sem nefnist Festi, að rekstrarhagnaður samstæðunnar hefði hækkað umfram væntingar um 50% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Nú verður að spyrja hvers vegna fyrirtæki sem verður fyrir slíkum búhnykk getur ekki lækkað vöruverð. Og það verða að koma skýr svör við þeirri spurningu.

Upptöku af ræðu Þorsteins í þingsal má sjá hér