Eftirlit með innflutningi á búvörum

 

Í dag var á dagskrá Alþingis sérstök umræða um eftirlit með innflutningi á búvörum

Málshefjandi og flutningsmaður var Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins og til svara var fjármála- og efnahagsráðherra.

Sigurður Páll tók fram í ræðu sinni að í mörgum tilfellum er stórfelldur munur á því sem virðist vera flutt inn í landið borið saman við útflutning hingað af sömu vörum og þá einkum frá löndum ESB.  Þetta misræmi í tollframkvæmd hér á landi skekkir opinberar inn- og útflutningstölur sem gerir alla hagsýslugerð ónákvæma.  Fjölmargir aðilar, þ.á.m. ríki og bændur, hafa orðið fyrir tjóni vegna athafnaleysis stjórnvalda í þessu máli. 

Sigurður Páll spurði ráðherra hver samkeppnisstaða Íslands væri.  Einnig spurði hann um hver viðbrögð tollyfirvalda og ráðuneytisins hafi verið við upplýsingum um að misræmi sé á tölum um útflutning búvara frá löndum Evrópusambandsins og innflutningstölum hér á landi og eins viðbrögð þeirra við því að menn hafi skráð vöru við innflutning í ranga tollflokka. 

Flutningsræða Sigurðar Páls var svohljóðandi:

"Hæstvirtur forseti.  Ég þakka fyrir að fá þessa mikilvægu umræðu á dagskrá og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að vera til svara. Landbúnaður hefur átt undir högg að sækja síðustu misseri. Verð á flestum afurðum, einkum kjöti, hefur ekki haldið í við almenna verðlagsþróun eða hefur beinlínis lækkað. Markaður fyrir búvöru hefur minnkað vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Spurningin er: Hverjar eru samkeppnisaðstæður Íslands?

Íslenskur markaður er örmarkaður í alþjóðlegum samanburði. Landbúnaður innan ESB hefur víðtækar heimildir til starfa í skipulögðum samtökum framleiðanda og afurðastöðva til að ná markmiðum um afkomu bænda. Þannig eru víðtækar heimildir í Lissabonsáttmálanum til að skapa sérstakar reglur um landbúnað til að tryggja afkomu þeirra sem hann stunda og framboð á matvælum. Það er ólögmæt mismunun gagnvart atvinnugreinum að ekki séu innheimtir tollar og gjöld með lögboðnum hætti af innlendum vörum. Slíkt getur varðað skuldbindingar íslenska ríkisins að EES-rétti.

Í ljós hefur komið að í mörgum tilfellum er stórfelldur munur á því sem virðist vera flutt inn í landið borið saman við útflutning hingað af sömu vörum, einkum frá löndum ESB. Misræmið felst í því að meira magn af vöru virðist fara út úr Evrópusambandinu á útflutningsskýrslum frá tollyfirvöldum þar en er tollafgreitt hingað inn í landið í tollflokkum sem bera tolla. Á hinn bóginn virðast streyma inn vörur á tollskrárnúmerum sem eru tollalaus og engin leið að vita hvaðan þær koma eða hvaða vörur er um að ræða.

Það má velta því fyrir sér hver tilgangurinn er með slíkum vinnubrögðum. Það er allt sem bendir til þess að hér sé ekki um neitt annað að ræða en stórfellt tollasvindl. Tollasvindl er lögbrot en ekki misræmi í framkvæmd samninga eins og gjörningurinn hefur jafnvel verið nefndur hér í ræðupúlti Alþingis. Héraðssaksóknari hefur a.m.k. einu sinni á þessu ári kært fyrir brot af þessu tagi. Því miður virðist hins vegar svo að brot sem þessi kunni að hafa staðið yfir árum saman í einhverjum tilvikum.

Íslenska ríkið þarf að taka það alvarlega að fylgja alþjóðlegri samræmdri tollskrá og lögmæti hennar hér á landi. Þar eru skýrar réttarheimildir og Ísland er skuldbundið til að fylgja henni. Misræmi í tollframkvæmd hér á landi miðað við t.d. tollframkvæmd ESB skekkir opinberar inn- og útflutningstölur sem gerir alla hagsýslugerð ónákvæma. Rangar eða ónákvæmar hagtölur hafa enn fremur áhrif á samningsgerð Íslands við önnur ríki enda eru traustar hagskýrslur ein grundvallarforsendan fyrir gerð viðskiptasamninga. Mikilvægt er að halda því til haga að á gögnum sem fylgja vöru frá seljanda t.d. í ESB kemur fram á hvaða tollanúmeri varan er flutt út frá ESB. Álitamál um flokkun við gerð innflutningsskýrslu hér á landi snúa einvörðungu að skráningu á sjöunda og áttunda staf, sé slíkri flokkun til að dreifa hér á landi.

En hvert er tjón neytanda og ríkis og bænda vegna málsins? Fjölmargir aðilar hafa orðið fyrir tjóni vegna athafnaleysis stjórnvalda í þessu máli. Í fyrsta lagi verður ríkið af mögulegum tekjum af tollum á vörum sem fluttar eru til landsins og hefðu verið fluttar inn á tollum að öllu eðlilegu. Í öðru lagi hafa bændur orðið af markaði sem hleypur á milljónum lítra mjólkur og hundruðum eða þúsundum tonna af kjöti. Hafi slíkt verið ætlun stjórnvalda hefði verið nær að segja slíkt berum orðum en að halda ekki samtímis uppi fagurgala um mikilvægi landbúnaðar, því tekjutap bænda er tilsvarandi. Allir aðrir aðilar á markaði, sem hafa fylgt settum leikreglum réttarríkisins, hafa sömuleiðis borið skertan hlut frá borði vegna þeirra ólögmætu mismununar sem felst í því að innheimta ekki lögboðna tolla af innheimtum vörum.  Samfélagið í heild það tapar á stjórnarháttum sem þessum.  Traust á stjórnsýslunni er brostið sem og traust til stjórnvalda við að innleiða og standa við alþjóðlega samninga og í þessu tilfelli samræmdu tollskránna samkvæmt aðild okkar að alþjóðlegu tollastofnuninni.  Þetta leiðir að því að breyta þarf tollaskránni sjálfri, tollaframkvæmd og auka við eftirlit.  Bændur og þjóðfélagið allt hefur tapað á þessu og það er óásættanlegt.  Ég hvet ráðherra og ríkisstjórnina alla til að taka á þessu máli.  Ég hef heyrt úr ýmsumm áttum að fækkað hefur starfsfólki við tollaeftirlit á undanförnu misserum og það segir ýmislegt um hvernig málið er statt í dag."

 Til svara var fjármála- og efnahagsráðherra og má lesa ræður hans hér og hér.  

Einnig tók til máls fyrir hönd Miðflokksins, Karl Gauti Hjaltason, og má lesa ræðu Karls Gauta hér.

Umræðuna um málið á alþingi má sjá í heild sinni hér.