Einn einstaklingur - eitt atkvæði

Í nýrri þingsályktunartillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er lagt til að sveitarfélög með færri en þúsund íbúa verði þvinguð til sameiningar við önnur sveitarfélög árið 2026 og að sameiningin verði lögbundin. En það felur í sér að íbúar fái ekki að kjósa um sameininguna. Þingsályktunartillagan er stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og kemur þar fram að áhersla er lögð á gott og víðtækt samráð um land allt.

Sveitarfélög eru sjálfstæð stjórnvöld sem er stjórnað af lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum í umboði íbúa sveitarfélagsins. Sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga er tryggður í 78. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Þessi réttur sveitarfélaga hefur verið verndaður í stjórnarskrá allt frá 1874 þegar Íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá. Það má ekki gleymast í allri umræðunni að sveitarfélög eru einn af helstu hornsteinum lýðræðislegs stjórnarfars þar sem sveitarfélögin eru handhafar framkvæmdarvaldsins. Sveitarfélögin fara með staðbundna stjórnsýslu og gegna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki. Sveitarfélög eru það stjórnvald sem stendur íbúum þess næst. Sjálfstjórn sveitarfélaga felur í sér rétt íbúa til að kjósa þá sem fara með stjórn sveitarfélagsins í almennum og lýðræðislegum kosningum. Sjálfstjórn sveitarfélaga byggist fyrst og fremst á þeirri lýðræðislegu hugsun að það sé réttur fólksins í landinu að geta haft bein áhrif á nærumhverfi sitt. Mótun nútímalýðræðisins á sér langa sögu og snerust helstu átökin í þessari mótun um kröfu almennings um réttinn til þátttöku sem endaði á þann veg að grundvallarreglan einn einstaklingur – eitt atkvæði festist í sessi. Á þessari grundvallarreglu byggist undirstaða alls lýðræðis sem helgast af jafnréttisfyrirkomulagi sem viðurkennir rétt allra manna til áhrifa og að menn fái sem mestu ráðið í sínu nánasta umhverfi fram yfir þá íbúa sem búa víðs fjarri þeim í öðrum landshluta.

Hvers konar samráð felst í þeirri ákvörðun að sveitarfélög með færri en þúsund íbúa verði lögþvinguð til sameiningar árið 2026 og það með þeim hætti að lýðræðislegur atkvæðisréttur íbúa sé virtur að vettugi? Er það virkilega stefna ríkisstjórnarinnar í stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga að brjóta niður lýðræðið í landinu? Árið er 2020 og baráttan fyrir lýðræði heldur áfram.

 

Höfundur:  Heiðbrá Ólafsdóttir, lögfræðingur, kúabóndi og meðlimur í stjórn Miðflokksins í Rangárþingi.

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 20. febrúar, 2020