Eldhúsdagsumræður

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður) fóru fram á Alþingi þriðjudaginn 23. júní, 2020 kl. 19:30.

Ræðumaður Miðflokkins í annari umferð var Sigurður Páll Jónsson, 8. þm. Norðvesturkjördæmis.

 

Ræða Sigurðar Páls:

"Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Við höfum undanfarið fengið það staðfest sem við vissum fyrir. Í þjóðinni býr ótrúlegur dugnaður og seigla. Það sannaðist nýlega þegar heilbrigðiskerfið allt stóðst þá þolraun sem á það hefur verið lagt. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan ýmissa þeirra stofnana sem reka elliheimilin sem lögðu grunninn að þessum árangri. Þau gripu samstundis til sóttvarna sem örugglega hafa bjargað mannslífum. Þetta er skýrt dæmi um það þegar opinber heilbrigðisþjónusta og einkarekin starfa vel saman. Slíku fyrirkomulagi ber að halda áfram enda getur hvor lært af hinni og samkeppni er alltaf til góða fyrir þann sem þarf að nýta sér þjónustuna.

Við erum lánsöm að hér á landi eru fjölmörg samtök sem hvert um sig sinnir afmörkuðum hluta heilbrigðisþjónustu. Hér ber að nefna Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu en innan þeirra raða eru meðal annars Hrafnista, fleiri öldrunarstofnanir og SÁÁ auk fleiri meðferðarstofnana. Hver um sig sinnir stórum hluta landsmanna, annars vegar öldruðum, sem mun fara fjölgandi með hærri lífaldri, og hins vegar fólki sem glímir við fíkn. Auðvitað verður að minnast á Krabbameinsfélagið og það frumkvöðlastarf sem þar hefur verið unnið í gegnum tíðina. Ég verð, kæru landsmenn, að nefna í þessu sambandi Píeta-samtökin sérstaklega en þau stunda forvarnastarf gegn sjálfsvígum og styðja þá sem misst hafa ástvini sína sem fallið hafa fyrir eigin hendi.

Öll slík samtök ber okkur að styðja. Vandi allra þessara samtaka er ekki endilega að fjármagna uppbyggingu heldur samskipti við ríkisvaldið sem nú stjórnar. Það vill beina öllum á sama básinn. Eitt allsherjar sósíalískt kerfi. Slíkt fyrirkomulag er ekki nýtt af nálinni og hefur hvergi gefist vel.

Stjórnmálamenn stökkva oft á skyndilausnir. Það er mannlegt, gleymum því ekki að stjórnmálamenn eru manneskjur. Þegar mál, oft viðkvæm, komast í hámæli vilja stjórnmálamenn gjarnan slá sig til riddara á kostnað slíkra málefna til eigin upphafningar. Gjarnan er borið við mannúðarsjónarmiðum, gilda þá lög og reglur ekki.

Miðflokkurinn hugsar í langtímalausnum. Þær eru m.a. heilsuefling aldraðra, forvarnir og lýðheilsa. Besta fjárfesting sem hægt er að ráðast í eru forvarnir hverju nafni sem þær nefnast. Arður af forvörnum skilar sér ekki strax, hann gerir það eftir ákveðinn tíma. Forvarnir má aldrei hugsa sem átaksverkefni, þær eru langhlaup.

Við leggjum áherslu á að fólk þjáist ekki að óþörfu, við viljum stytta biðlista bæði til að minnka þjáningar fólks og styðja það út á vinnumarkaðinn. Það er frá öllum hliðum séð skynsamlegt.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Við höfum fullan skilning á því að heilbrigðiskerfið lamaðist að miklu leyti þegar Covid-faraldurinn reið yfir. Óhjákvæmilega lengdust biðlistar eftir aðgerðum. Nú skulum við hins vegar hætta að berja höfðinu við steininn og nýta öll þau úrræði sem hér standa til boða. Festum okkur ekki í kreddum um að ríkið sé það eina sem eigi að sinna heilbrigðisþjónustu. Hagsmunirnir eru einfaldlega of miklir. — Kæru landsmenn. Góðar stundir."

Hér má sjá vídeóupptöku af ræðu Sigurðar Páls í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi.