Eldhúsdagsumræður

Herra forseti. Góðir landsmenn.

Það hillir undir lok kjörtímabils sem markast hefur að töluverðu leyti af baráttu heimsbyggðarinnar við kórónuveirufaraldur. Íslendingum hefur farnast betur en mörgum í baráttu við vágestinn þrátt fyrir fálmkennd viðbrögð ríkisstjórnarinnar meðan á faraldrinum hefur staðið. Núverandi stjórnarandstaða á ekki síst þátt í því að vel hefur tekist til með því að sýna ábyrgð og festu. Nú þegar hillir undir lok faraldurs þarf að taka víða til hendi í sókn til meiri atvinnu, aukinnar verðmætasköpunar og bættra lífskjara allra þjóðfélagshópa.

Áhorfandi góður. Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin gleymt nokkrum þjóðfélagshópum algerlega. Þar má m.a. nefna eldra fólk, öryrkja og ungt fólk. Landssamband eldri borgara setti fram fimm baráttumál á fundum nýlega. Það er ánægjulegt að segja frá því að Miðflokkurinn hefur ítrekað lagt fram þingmál sem varða þrjú af þessum fimm baráttumálum: Um lengdan starfsaldur ríkisstarfsmanna, að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur og um sérlagabálk um málefni aldraðra sem tryggi einfaldara kerfi og notendavæna þjónustu við hópinn. Hin tvö áhersluatriðin rúmast innan stefnu flokksins sem kynnt var á landsþingi hans um helgina undir kjörorðunum: Frá starfslokum til æviloka. Stefnan byggir á að þjónusta við eldra fólk verði samhangandi keðja þar sem einn hlekkur taki við af öðrum og tryggi réttindi og lífskjör fólks án þess að eldra fólk og aðstandendur þurfi að standa í sífelldri baráttu fyrir sjálfsögðum rétti þessa sístækkandi hóps. Þar má telja lífsleikni og hreyfingu, sálfræðiþjónustu, aukna heimaþjónustu, ný búsetuúrræði og fleira.

Flokkurinn hefur einnig lagt ítrekað til að krónu á móti krónu skerðingu öryrkja verði hætt og að þeir geti notið starfskrafta sinna eins og þeir hafa afl til.

Góðir landsmenn. Ungt fólk á ekki sömu möguleika nú áður var. Skólakerfið svarar ekki kalli um breyttar áherslur. Eins og nú er hentar skólakerfið drengjum ekki. Í nýsamþykktri menntastefnu er ekki eitt orð um erfiðleika drengja í námi. Þar er heldur ekki að finna eitt orð um sjálfstætt starfandi skóla á öllum námsstigum. Þarna er verk að vinna fyrir nýja ríkisstjórn til að marka nýja stefnu í verk-og tæknimenntun framar öðru ásamt því að flýta og efla starfskynningar þannig að fólk geti fundið sér námsleiðir við hæfi og áhuga.

Áhorfandi góður Ungt fólk á einnig undir högg að sækja á öðrum sviðum. Æ erfiðara reynist fyrir þennan hóp að koma sér þaki yfir höfuðið. Ósanngjarnt greiðslumat á þar stóran þátt. Nýtt úrræði félagsmálaráðherra með hlutdeildarlánum kemur engum að gagni á höfuðborgarsvæðinu. Til þess eru skilyrði úrræðisins of þröng og lóðaframboð allsendis ónógt. Ungt fólk í Reykjavík glímir einnig við vanda vegna þess að Reykjavíkurborg trassar uppbyggingu leikskóla. Unga fólkið flýr því höfuðborgina og sest að í nálægum sveitarfélögum. Uppbygging í Árborg er ævintýri lík með aðkomu Miðflokksins og á Akranesi, Suðurnesjum og í Ölfusi fjölgar fólki mun meira en í Reykjavík. Það er því að sönnu hægt að þakka formanni Samfylkingarinnar fyrir að vara kjósendur við með þeirri ætlan sinni að koma upp ríkisstjórn í anda borgarstjórnar Reykjavíkur sem skilur höfuðborgina eftir á barmi gjaldþrots. Vörumst sömu örlög ríkissjóðs.

Góðir landsmenn. Það er þó nokkur hætta á því að núverandi vinstri stjórn sitji áfram. Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokki kemur ekki í veg fyrir vinstri stjórn. Eina tryggingin fyrir því að hér verði borgaraleg stjórn sem stendur vörð um fullveldi og öryggi Íslands er að Miðflokkurinn hljóti góða kosningu nú í haust. Miðflokkurinn stundar ekki útilokunaraðferðir við val á samstarfsaðilum. Þar ráða stefnumið og áherslur ferð. Skynsemisstefna og rökhyggja eru hornsteinar Miðflokksins.

Herra forseti. Það er ekki hægt að ljúka þessari ræðu án þess að þakka starfsfólki Alþingis fyrir það hversu ævintýralega vel þau hafa staðið sig í gegnum þennan faraldur og tryggt það að Alþingi hafi getað starfað hér snurðulaust eins og í venjulegu árferði. Það verður seint fullþakkað.

Áhorfandi góður.  Ég skora á þig að kynna þér stefnumið Miðflokksins sem er að finna á heimasíðu flokksins og óska þér og þínum gleðilegs sumars og að þið eigið góðar stundir í sumar.

Mótum framtíðina saman.

 

Þorsteinn Sæmundsson, 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður

Eldhúsdagsumræður 7. júní, 2021

Þorsteinn talaði fyrir Miðflokkinn í 3. umferð