Skipulögð glæpastarfsemi - Taka þarf á innflutningi og sölu stórskaðlegra fíkniefna

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í Störfum þingsins á Alþingi í dag:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á frétt sem birtist fyrir nokkrum dögum og sem hefur farið í raun sáralítið fyrir og litla umræðu fengið. Fréttin er þess efnis að heróín sé farið að ryðja sér til rúms hér á landi. Þetta er haft eftir verkefnisstjóra hjá Frú Ragnheiði þar sem langt leiddir fíklar fá aðstoð til skaðaminnkunar. Það er grafalvarlegt ef þetta stórskaðlega fíkniefni fer að ryðja sér til rúms hér á landi en við höfum blessunarlega og að langmestu leyti verið laus við heróín hingað til þó að efnið hafi verið algengt víða í nágrannalöndum okkar.
Herra forseti. Það kom einnig frétt fram fyrir tæpum þremur árum frá starfsmönnum Frú Ragnheiðar að þau óttuðust að heróín kæmi í kjölfarið þegar nýr lyfjagagnagrunnur var tekinn upp 2017 og minna varð á markaðnum af lyfseðilsskyldum lyfjum. Nú bætist kórónuveirufaraldurinn ofan á. Það er vissulega mikið áhyggjuefni að heróín sé farið að ná fótfestu hér á landi. Flest algengustu fíkniefnin á markaðnum eru þannig að um er að ræða fastar skammtastærðir. Í heróínneyslu eru skammtastærðir óræðar sem býður heim hættu á dauðsföllum vegna ofskömmtunar. Af því tilefni hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um upplýsingar um tíðni og magn haldlagðra heróínefna hér á landi undanfarin ár og einnig það sem af er þessu ári.
Á þessu þarf að taka, herra forseti, og í því sambandi bendi ég á að það er löngu kominn tími til að lögreglan sé fullmönnuð, hún verði betur í stakk búin til að takast á við innflutning og sölu á þessu stórskaðlega efni.

Upptöku af ræðu Karls Gauta má finna hér.