Kallar eftir sérstakri umræðu um uppgang skipulagðra glæpahópa á Íslandi

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í störfum þingsins í dag.  Hann ræddi um alvarlega stöðu á uppgangi skipulagðra glæpahópa hér á landi og kallar eftir sérstakri umræðu um málið á Alþingi.

"Við höfum stolt getað sagt að Ísland sé tiltölulega friðsælt og öruggt land. Þannig viljum við auðvitað að það verði áfram. Í gær ræddi ég við hæstv. dómsmálaráðherra um nýlegar fréttir af voðaatburði hér í borg og almennar áhyggjur má finna í samfélaginu af þróuninni hvað varðar hörkuna sem virðist vera að koma í ljós að viðgengst í undirheimum borgarinnar. Fólki bregður eðlilega við þegar svona atburðir eiga sér stað en staðreyndin er sú, herra forseti, að þetta ætti ekki að koma á óvart.

Ég hef hér úr ræðustóli Alþingis ítrekað bent á alvarlegar viðvaranir greiningardeildar ríkislögreglustjóra við síaukinni hættu á uppgangi skipulagðra glæpahópa, oft með erlendar tengingar, t.d. í skýrslu 2017 og aftur 2019. Einnig efndi ég til sérstakrar umræðu um málefnið vorið 2018.

Vísbendingarnar hafa verið til staðar. Bent hefur verið á hættuna. Í skýrslu greiningardeildarinnar er málið talið varða þjóðaröryggi. Staðan er alvarleg og svo virðist sem ekki hafi verið brugðist nægilega við ítrekuðum ábendingum innan úr lögreglunni sjálfri. Skipulögðum glæpahópum virðist vaxa ásmegin.

Hvað getum við gert?

Við getum hlustað á ábendingar lögreglunnar í þessum efnum, eflt hana og fjölgað lögreglumönnum eins og margoft hefur verið kallað eftir og aukið heimildir lögreglu til forvirkra rannsóknarheimilda í þessum efnum svo að hún geti tekist á við þessa stórhættulegu starfsemi og þannig mætti áfram telja.

Ég tel því brýnt að taka þau mál til sérstakrar umræðu hér í sölum Alþingis og ekki er vanþörf á."

Upptöku af ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér