Hringtenging rafmagns á Vestfjörðum

Þingflokkur Miðflokksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.

Flutningsmaður er Bergþór Ólason.

Með tillögunni er ályktað að fela ríkisstjórninni að tryggja Vestfirðingum sama afhendingaröryggi rafmagns og öðrum landsmönnum með því að koma á hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.

Á Vestfjörðum hefur afhendingaröryggi rafmagns lengi verið lakara en annars staðar á landinu. Vestfirðingar eru háðir innflutningi orku af meginflutningskerfi landsins og þaðan fá þeir ríflega 40% þeirrar raforku sem notuð er í landshlutanum. Enginn landshluti á að þurfa að búa við slíkt ástand en þrátt fyrir að margir hagkvæmir virkjunarkostir séu á Vestfjörðum hefur ekki náðst sátt um nýtingu þeirra. Því er nauðsynlegt að tryggja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum með hringtengingu. Til þessa hafa forsendur útreikninga Landsnets gengið út á að Hvalárvirkjun geti rekið kerfið á Vestfjörðum ef það einangrast frá meginflutningskerfinu án þess að til truflunar komi á afhendingu raforku. Mikil óvissa ríkir nú um virkjun Hvalár og því er nauðsynlegt að koma á öflugri hringtengingu, óháð því hvort af virkjun Hvalár verður eða ekki.

Með hringtengingu er átt við að orka geti borist úr tveimur áttum en ekki einni. Verði bilun á annarri línunni berst rafmagn áfram með hinni. Nú kemur allt aðflutt rafmagn til Vestfjarða með einni línu, Vesturlínu. Hún er rúmlega 161 km löng, milli Hrútatungu og Mjólkárvirkjunar, og liggur yfir svæði sem er bæði veðurfarslega og landfræðilega erfitt.

Samkvæmt úttekt Vestfjarðastofu er helsti vandi Vestfirðinga í raforkumálum afhendingaröryggi orkunnar en Vestfirðir eru háðir innflutningi á orku af meginflutningskerfi landsins. Tíðar rafmagnstruflanir eru dýrar og standa bæði vexti og rekstri atvinnulífs fyrir þrifum.

Fyrirtæki á Vestfjörðum þurfa reglulega að kljást við spennuflökt og útslátt. Spennuflökt veldur umtalsverðu tjóni á viðkvæmum tölvustýrðum vélum og flestum tölvubúnaði. Slíkt kostar fyrirtæki á svæðinu umtalsverðar upphæðir á hverju ári en þegar rafmagn slær út felst alltaf tjón í því fyrir fyrirtækin. Gera má ráð fyrir töf í hvert sinn og á meðan eru flestir starfsmanna verkefnalausir. Síðar þarf að endurræsa vélar og hönnuðir og forritarar þurfa að vinna upp það sem ekki var vistað. Þetta hefur í för með sér vinnutap með reglulegu millibili. Kælar, frystivélar og annar vélbúnaður er sömuleiðis viðkvæmur fyrir flökti á rafmagni.

 Vegna fyrirvaralausra bilana og viðhalds á flutningskerfi raforku á Vestfjörðum getur brennsla á dísilolíu í varaaflsstöðvum og olíukötlum hæglega numið 500 tonnum á ári. Alvarleg bilun í flutningskerfi Vestfjarða, sem varir dögum saman, getur margfaldað þessa tölu.

Vestfjarðastofa hefur staðfest að aukin eftirspurn verður eftir orku á Vestfjörðum næstu árin vegna fjölbreyttrar starfsemi, svo sem kalkþörungavinnslu, fiskeldis og ferðaþjónustu, og vegna fjölgunar íbúa samhliða auknum umsvifum í atvinnulífi. Slík uppbygging er háð því að afhendingaröryggi og aðgangur að aukinni orku sé fyrir hendi.

Raforkulög gera skýra kröfu til Landsnets um að kostnaður vegna viðbóta við flutningskerfið sé greiddur á markaðslegum forsendum. Áætlaður kostnaður vegna uppbyggingar samkeppnishæfs flutningskerfis á Vestfjörðum er á annan tug milljarða króna. Atvinnustefna sem byggist á hægfara aukningu og fjölbreyttri starfsemi gæti greitt fyrir uppbyggingu á löngum tíma en þá þurfa stjórnvöld að veita Landsneti ábyrgð til að mæta fjármagnskostnaði vegna uppbyggingarinnar. Veruleg aukning á raforkuframleiðslu innan Vestfjarða gæti verið sú lausn sem heggur á þennan hnút en óvissa ríkir nú um hvort virkjunarkostir Vestfirðinga verði nýttir. Því þurfa stjórnvöld að grípa inn í til að jafna stöðu þeirra og annarra landsmanna, enda hljóta öll byggðarlög að eiga heimtingu á forsvaranlegu afhendingaröryggi rafmagns.

Flutningsmenn telja því nauðsynlegt að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að tryggja Vestfirðingum sama afhendingaröryggi rafmagns og öðrum landsmönnum með því að koma á hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.