Enginn titill

Anna Kolbrún Árnadóttir tók þátt í störfum þingsins á Alþingi í dag og ræddi um stöðu kvenna með endómetríósu.

Hæstv. forseti. Enn og aftur þarf að benda á óviðunandi biðtíma kvenna eftir nauðsynlegum úrbótum. Undanfarið hafa birst viðtöl við konur með endómetríósu og nú síðast í fréttatíma RÚV í gærkvöldi var viðtal við konu sem greind var með endómetríósu þegar hún var 28 ára. Konan hafði frá því að hún var 14 ára verið sárkvalin af verkjum. Endó, eins og sjúkdómurinn er kallaður í daglegu tali, er sjúkdómur sem orsakast af því að endómetríósufrumur sem finnast á ýmsum stöðum í líkamanum bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum kvenlíkamans. Það má segja að þessar frumur fari á flug. Allt þetta getur valdið miklum sársauka. Það getur leitt til þess að konur geta ekki orðið barnshafandi.
Nú hefur hæstv. heilbrigðisráðherra léð máls á því að liðskiptaaðgerðir verði framkvæmdar hér á Íslandi. Það er mikilvægt að það sama eigi við vegna kvenna sem bíða eftir aðgerðum. Þessi sjúkdómur er ekkert grín og þess vegna þarf að koma á samningi milli Sjúkratrygginga Íslands og Klíníkurinnar þannig að konur þurfi ekki lengur að bíða. Nú hefur læknir hafið störf á Klíníkinni sem hefur mikla reynslu af slíkum aðgerðum, en það þýðir að konur þurfa að greiða úr eigin vasa, við erum að tala um heila milljón og rúmlega það, en biðtími á Landspítala er upp undir tvö ár. Ég vil hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að bregðast strax við ákalli þessara kvenna sem margar hverjar eru sárþjáðar.

Umræðuna má sjá hér