Er munur á hné og öxl?

Ný­lega barst svar heil­brigðisráðherra við tveim­ur spurn­ing­um, sú fyrri sneri að því hvað þyrfti til að fækka ein­stak­ling­um á biðlist­um fyr­ir val­kvæðar aðgerðir á Land­spít­ala. Með val­kvæðum aðgerðum er átt við þegar sá aðili sem fram­kvæm­ir aðgerðina get­ur stjórnað því hvenær hún er gerð. Það er ekki átt við að ein­stak­ling­ar hafi val um að fara í aðgerð, það vel­ur eng­in/​n að fara í aðgerð ef hægt er að kom­ast hjá því. Það verður að viður­kenn­ast að svarið kom ekki sér­stak­lega á óvart, það er samt ým­is­legt tínt til sem á að rétt­læta biðina. Það fyrsta er að það sé ákveðin samstaða um að það sé ásætt­an­legt að bíða, það sagt vera þar sem heil­brigðis­stofn­an­ir þurfi að skipu­leggja starf­semi sína og að þeir sem eru í brýn­ustu þörf fái þjón­ustu strax. Nefnt er í svar­inu að land­læknisembættið hafi sett ákveðin viðmið um hvað sé ásætt­an­leg bið en samt sem áður sé ljóst að biðtími eft­ir ákveðnum aðgerðum sé of lang­ur og þess vegna hafi verið gripið til þess ráðs að leggja til aukið fjár­magn til þess að fækka ein­stak­ling­um sem bíða aðgerðar hvað lengst. Í svar­inu er rifjuð upp út­tekt embætt­is land­lækn­is á al­var­legri stöðu bráðamót­töku Land­spít­ala sem fór fram í lok árs 2018 og nefnt að bið eft­ir hjúkr­un­ar­rým­um hafi nei­kvæð áhrif á starf­semi sjúkra­húss­ins. Einnig er talið til að upp­bygg­ing meðferðar­kjarna Land­spít­ala við Hring­braut muni hafa veru­leg áhrif á af­köst spít­al­ans ásamt þjón­ustu­tengdri fjár­mögn­un með DRG (Diagnos­is-rela­ted group).

Seinni spurn­ing­in sneri að því hvort ráðherra teldi það væn­leg­an kost að semja við einkaaðila til að stytta biðlista eft­ir aðgerðum og var svarið við þeirri spurn­ingu að mik­il­vægt væri að all­ar ákv­arðanir um það hver sinni hvaða hluta heil­brigðisþjón­ust­unn­ar verði tekn­ar með til­liti til heil­brigðis­kerf­is­ins í heild og að þær verði ekki til þess að veikja und­ir­stöðu op­in­berr­ar heil­brigðisþjón­ustu. Svarið end­ar með því að til skoðunar sé hvort semja megi um til­greinda sér­tæka þjón­ustu inn­an ramma laga um heil­brigðisþjón­ustu.

Kona ein bú­sett á lands­byggðinni fór í hnjáaðgerð á vinstri fæti á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri fyr­ir sex árum, að áliti kon­unn­ar tókst sú aðgerð ekki nægj­an­lega vel og var kon­an kval­in þrátt fyr­ir að sækja tíma í sjúkraþjálf­un og fara eft­ir öll­um ráðlegg­ing­um sér­fræðinga. Á end­an­um féllst kon­an á að fá annað álit lækn­is á aðgerðinni og leitaði hún til Klíník­ur­inn­ar og til að gera langa sögu stutta þá tók kon­an þá ákvörðun að fara í aðgerð á hægra hné þar þó svo hún þyrfti að greiða fyr­ir aðgerðina úr eig­in vasa. Von henn­ar var að ef hún næði því góðu gæti hún fengið jafnt álag á bæði hnén. Und­ir­bún­ing­ur aðgerðar­inn­ar byrjaði með mynda­töku af hnénu 26. sept­em­ber sl. og var aðgerðin fram­kvæmd 10. des­em­ber sl. Aðgerðin tókst mjög vel, eft­ir­fylgni til fyr­ir­mynd­ar. Nú fer kon­an allra sinna ferða gang­andi, nán­ast sárs­auka­laust, og er þar með ekki leng­ur fé­lags­lega ein­angruð. Síðastliðið vor datt þessi sama kona illa, lenti á öxl­inni og þar sem hún var enn í sjúkraþjálf­un vegna hnjánna var það sjúkraþjálf­ar­inn sem hafði sam­band við lækni sem starfar í Orku­hús­inu. Kon­an þurfti ekki að greiða fyr­ir þessa aðgerð, hún var greidd af Sjúkra­trygg­ing­um Íslands. Um það bil þrem­ur vik­um seinna var kon­an búin í aðgerð sem tókst vel og eft­ir­fylgni sýn­ir að allt geng­ur að ósk­um. Svona aðgerðir eru aðeins gerðar í Reykja­vík þannig að það kost­ar ferðalög fyr­ir alla þá sem koma ann­ars staðar frá, það skal tekið fram að Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands taka aðeins þátt í tveim­ur ferðum á ári, þessi kona þarf að sækja tíma hjá lækni í Reykja­vík vegna eft­ir­fylgni alla vega þris­var ef ekki fjór­um sinn­um.

Svo virðist sem Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands séu með samn­ing við lækna sem starfa í Orku­hús­inu en hafi ekki virk­an samn­ing við lækna sem starfa hjá Klíník­inni, eitt­hvað er það sem ekki rím­ar sam­an. Það er ekki nema von að kon­an hafi spurt hver sé mun­ur­inn á öxl og hné, von­andi verður sú spurn­ing tek­in með í svari heil­brigðisráðherra þegar sagt er að til skoðunar sé hvort semja megi um til­greinda sér­tæka þjón­ustu inn­an ramma laga um heil­brigðisþjón­ustu.

 

Höf­und­ur:  Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokks­ins í norðausturkjördæmi

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 27. ágúst, 2020