Er Skógarstrandarvegur týndur og tröllum gefinn?

Við sem búum úti á landi vitum að til þess að tryggja að sem flest landsvæði séu í byggð þá verðum við að þjónusta þau og samgöngur verða að vera í lagi til að mannlíf fái þrifist. Því miður hafa allt of mörg svæði hér í kjördæminu verið nánast gleymd þegar kemur að nýframkvæmdum og viðhaldi. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða til að koma samgöngum framar í forgangsröðina. Aðferðarfræði Vegagerðarinnar við að forgangsraða vegaframkvæmdum er ekki að virka hér í Norðvesturkjördæmi, það sjá allir.

Skógarstrandarvegur, hinn gleymdi vegur númer 54 í vegakerfi Íslands, gegnir lykilhlutverki í því að tengja saman Dali og Snæfellsnes, en þessi vegur er nánast óakandi. Ég ætti að vita það enda ekki farið ófáar ferðir um hann á leið minni um kjördæmið. Það er nánast furðulegt að hugsa til þess að Skógarstrandavegur er eini stofnvegur á Vesturlandi sem er án bundins slitlags og sá lengsti á láglendi landsins alls sem þannig háttar til um. Nú eru að verða þrjú ár síðan ég lagði fram þingsályktunartillögu um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar á Alþingi. Því miður hefur ekkert gerst þó einstaka þingmenn hafi gert sitt besta til að minna á málið.

Það er ekki eins og heimamenn hafi ekki gert sitt ítrasta til að vekja athygli á þessu en stjórnvöld virðast ekki hafa neinn áhuga á málinu. Í samgönguáætlun Vesturlands sem samþykkt var af öllum sveitarfélögum í landshlutanum árið 2017 er lögð rík áhersla á uppbyggingu vegarins um Skógarströnd. Þá vildu sveitarstjórnarmenn hraða framkvæmdum enda stóraukin umferð ferðamanna um veginn til viðbótar við heimamenn og há slysatíðni var að þrýsta á um að framkvæmdum yrði flýtt eins og kostur er.

Einn hættulegasti vegur landsins

Félagi minn í Miðflokknum, Ólafur Guðmundsson ráðgjafi í umferðaröryggismálum, vann úttekt fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturland árið 2019 um veginn. Þar kom fram að umferð Skógarstrandarveg hefur aukist jafnt og þétt. Um leið hafði slysatíðni hækkað umtalsvert og eins og ástand hans er núna er hann beinlínis varasamur ef ekki hættulegur. Fyrri athuganir höfðu sýnt hann vera einn þriggja hættulegustu vegarkafla landsins.

Vegurinn um Skógarströnd hefur mikla þýðingu fyrir íbúa á svæðinu sem um áratugaskeið hafa búið við slæma malarvegi. Víða á svæðinu er stundaður landbúnaður og ferðaþjónustu vex hratt og margir hafa metnaðarfull áform þar. Allir vita að með bættum samgöngum skapast ýmis tækifæri varðandi samstarf Snæfellinga og Dalamanna. Auk þess myndi Dalabyggð njóta góðs af þeim gríðarlega fjölda ferðamanna sem leggur leið sína um Snæfellsnes og skemmtileg hringleið opnast sem án efa eykur arðsemi framkvæmdanna. Þá er rétt að benda á að í tillögum um aðgerðir til uppbyggingar innviða í kjölfar óveðurs í desember 2019 var lagt til að Heydalur og Laxárdalsvegur yrðu lagðir bundnu slitlagi þannig að þeir gætu nýst nýst frekar sem varaleið þegar Holtavörðuheiði og Brattabrekka lokast.

Vegurinn um Skógarströnd tengir þessa tvo vegi saman og því mikilvægt að hugað sé að uppbyggingu hans þegar styrkja á varaleið fyrir áðurnefnda fjallvegi. Því er mikilvægt að hönnun endurbóta, kostnaðar- og verkáætlun að nýjum Skógarstrandarvegi liggi fyrir sem fyrst.

Sigurður Páll Jónsson, fyrsti varaþingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist í Skessuhorni 8. desember, 2022.