Eru sjómenn venjulegir menn?

Við allsérstaka tíma er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur. Hátíðahöld á sjómannadag eru ólíkt því sem margir halda rétt um 80 ára gömul. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1938. Til sjómanna teljast allir þeir er starfa á sjó, vélstjórar, skipstjórnarmenn, matsveinar, hásetar og svo mætti lengi telja. Samstarf góðrar áhafnar er einstakt, það vita þeir sem þekkja. Hátíðahöld á sjómannadaginn eru ætluð til að minnast starfa sjómannsins og þeirra sjómanna sem látist hafa við störf. Daginn ætti að hugsa í því samhengi að á bak við hvern einasta sjómann stendur heil fjölskylda. Það er enn svo að í langflestum tilfellum veljast karlar til sjómannsstarfa, á þessu eru sem betur fer undantekningar og mun konum örugglega fjölga í stéttinni þegar fram líða stundir. Á meðan sjómaðurinn er á sjó þarf makinn að sinna öllu því sem að fjölskyldu og heimili lýtur. Staða sjómannskonunnar er einstök, hún ber mikla ábyrgð, hún stýrir búi og fær aldrei „pabbahelgar“. Það er því ekki síst fyrir tilstilli sjómannskonunnar að sjómaðurinn getur haldið rólegur til sinna erfiðu starfa.
 

Sjómannsstörf eru sérstök og það er aldrei ofsagt. Til þeirra veljast duglegir menn sem jafnframt þurfa að færa fórnir. Fjarvera frá fjölskyldu og ástvinum er ókostur starfans, sjómannsstörfum fylgir mikið álag, bæði líkamlegt og andlegt. Vinnudagurinn er langur, yfirleitt aldrei minna en tólf tímar. Unnið er alla daga vikunnar, dag sem nótt. Vitanlega eru frí á milli túra, en mikil vinna, við erfiðar aðstæður, kemur á endanum niður á heilsu manna. Tíðni álagsveikinda og örorku er því miður há meðal sjómanna.

Þegar ný skip koma til hafnar eru gjarnan sýndar myndir frá aðstöðu áhafna og gert mikið úr aðbúnaði. Þægindi hafa vissulega aukist og fjarskipti batnað. Öryggi er meira en áður fyrr, búnaður betri, en alltaf má gera betur. Sjúkrabílar sjómanna eru þyrlur landhelgisgæslunnar og um þann flota ber okkur að standa vörð. Sökum álags er starfsævi sjómanna styttri en flestra. Sem betur fer er skilningur á því og eiga sjómenn því rétt á sjómannalífeyri um sextugt.

Flestir starfa í skamman tíma á sjó eða nokkur ár. Það er ekki þar með sagt að þeir séu lakari sjómenn, þeir einfaldlega meta það svo að starfið sé ekki launanna virði eða að fórnirnar séu of miklar. Þeir sem kynnst hafa sjómannsstörfum eru stoltir af að hafa verið til sjós. Sú reynsla fylgir þeim og er gjarnan minnisverður kafli í ævi hvers og eins.

Með tímanum hefur skilningur á eðli og mikilvægi sjómannsstarfsins breyst. Sjómenn leggja metnað í að ganga vel um auðlindirnar og umhverfið. Það voru skipstjórar sem áttu frumkvæðið að því að koma með rusl í land, það þurfti engar lagasetningar til að koma því á.

Óhjákvæmilega mun störfum til sjós fækka í framtíðinni. Tækninni fleygir fram og sér ekki fyrir endann á. Það sem þótti óhugsandi fyrir nokkrum árum er í dag gerlegt. Sjómenn þurfa þess vegna að þjappa sér saman, stilla strengi og sýna samstöðu. Það væri að æra óstöðugan að minnast á þá vanvirðingu sem stéttinni var sýnd þegar sjómannaafslátturinn var endanlega afnuminn árið 2013. Sú aðgerð snerist ekki aðeins um krónur og aura heldur virðingu við stéttina og fjölskyldur hennar.

Sjómenn hafa í gegn um tíðina þurft að heyja harða baráttu fyrir sínum kjörum. Allir þekkja þá baráttu en æði oft hefur slíkri baráttu verið slitið með lagasetningu. Kröfur sjómanna hafa sennilega verið misjafnar enda stéttarfélög þeirra mörg þrátt fyrir fækkun í stéttinni. Þess ber þó að geta að kjör eru annað og meira en útborgaðar krónur. Góð heilsa að aflokinni starfsævi þykir flestum sjálfsögð og ætti að vera stór hluti í kjarabaráttu sjómanna. Lykillinn að því er eðlilegur vinnutími undir hóflegu álagi. Gæta verður að því að skip séu ekki undirmönnuð. Það er stöðugur þrýstingur á að fækka í áhöfnum sem eykur álag og minnkar öryggi sjómanna og gegn því þarf að spyrna við fótum. Forystumenn sjómanna þurfa að sýna þá samstöðu sem sjómenn kunna þegar þeir eru úti á sjó. Þar starfar áhöfnin saman að því eina markmiði að koma skipi og áhöfn heilu til hafnar.

Í tilefni sjómannadagsins vil ég senda sjómönnum og fjölskyldum þeirra hamingjuóskir og kveðjur.

 

Höfundur:  Jón Pétursson, stýrimaður og aðstoðarmaður formanns Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 6. júní, 2020