Fáum við frelsið aftur 2022?

Ótti er magnað fyrirbæri. Það er svo margt sem þrífst í skjóli óttans, sem er sjaldnast á öðrum rökum reist en möguleikanum á að eitthvað hræðilegt geti gerst. Það tekur langan tíma að vinda ofan af djúpstæðum ótta enda auðveldara að láta undan honum en að hafa hugrekkið til að takast á við hann.

Óttinn skilaði okkur stórkostlegum hömlum varðandi flugsamgöngur fyrir um tuttugu árum, í kjölfar hryðjuverka í Bandaríkjunum. Enn í dag eru öryggiskröfurnar þær sömu og þá, veitandi falskt öryggi á hverjum degi. Varla dropi af vökva sem keyptur er utan flugstöðvar má t.d. koma inn í flugvélina – allan vökva þarf að kaupa í flugstöðinni. Gott fyrir viðskipti þeirra fyrirtækja sem selja hluti í vökvaformi milli öryggishliðs og flugvélar en óljóst hvaða flugöryggi það skapar. Á 20 árum hefur ekki tekist að vinda ofan af þessu.

Óttinn skilar okkur í dag einum víðtækustu frelsisskerðingum seinni tíma, skerðingum á alla anga daglegrar tilveru og frelsi fólks. Óttinn við mögulega alvarleg veikindi af völdum Covid-19. Óttinn er svo sterkur að hann yfirtekur alla skynsemi, mylur hornsteina frelsis og mannréttinda án gagna, röksemda eða svo mikið sem opinberrar umræðu þar sem öll sjónarmið fá að heyrast án upphrópana. Óttinn svo víðtækur að sérfræðingar og vísindamenn hér á landi veigra sér við að tjá sig og sína skoðun og handfylli fólks stýrir allri umræðu og upplýsingum.

Það er auðvelt að sjá í hendi sér að þessar frelsisskerðingar munu ekki ganga til baka á næstunni og þaðan af síður jafn hnökralaust og þær voru innleiddar.

Fyrsta skrefið væri að tryggja að við völd væri ekki stjórnlynt fólk, eða fólk sem ófært er að standa í lappirnar þegar mikið liggur við – eins og til dæmis frelsi samlanda þeirra. Þessu má breyta með lýðræðislegum hætti og tækifæri munu gefast til þess

Þangað til má vona að fregnir af lífi og heilsu fólks undir þessum hörðu skerðingum veki fólkið sem situr við völd í dag. Fréttir af tugum sjálfsvíga, fréttir af blæðandi atvinnulífi sem er lamað vegna tugþúsunda í sóttkví eða einkennalausri einangrun, fréttir af hundruðum ungmenna sem hafa farið algerlega á mis við lífsmarkandi skólagöngu og félagslíf, fréttir af fólki sem fékk ekki greiningar eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu af ótta við álag á spítalanum vegna Covid-19 – álag sem er í raun ekki sligandi, nema þá helst á göngudeild Covid.

Ísland á að vera leiðandi í því að tryggja landsmönnum eðlilegt líf og hafa hugrekki til að læra að lifa með þessari veiru eins og öllum hinum sem herja iðulega á heimsbyggðina og bólusett er fyrir árlega.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 31. desember, 2021.