Nú nýlega lauk á Alþingi 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2020. Umræðan var á margan hátt dýpri en verið hefur undanfarin ár og þingflokkar höfðu tækifæri til þess að gera betur grein fyrir breytingartillögum sínum en oft áður. Niðurstaða umræðunnar var þó hefðbundin. Allar tillögur stjórnarandstöðunnar voru felldar af sitjandi meirihluta. Aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur voru hefðbundnar. Þeir sem minnst hafa og minnst eiga munu bera skarðastan hlut og þyngstar byrðar og þurfa því enn um sinn að bíða eftir réttlæti. Breytingatillögur stjórnarandstöðu á hverjum tíma eru misvel fram settar. Í ár voru tillögur nokkurra stjórnarandstöðuflokka í stórum slumptölum sem voru að mestu ófjármagnaðar. Sem sagt hefðbundin yfirboð. Tillögur Miðflokksins voru raunsæislegar, þrauthugsaðar og fjármagnaðar að fullu. Mig langar að gera hér örstutta grein fyrir því helsta sem Miðflokkurinn lagði til en stjórnarmeirihlutinn felldi.
Miðflokkurinn lagði til að breytingartillögur hans yrðu einkum fjármagnaðar með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með hagræðingarkröfu á rekstur ráðuneyta sem endurspeglar þá stefnu flokksins að hafa hemil á bákninu. Í öðru lagi með sölu á „holu“ eða nýbyggingu Landsbanka Íslands við höfnina sem einnig er byggð á þeim hinum sama vilja flokksins auk þess að leggja áherslu á ráðdeild í rekstri fyrirtækja í eigu almennings.
En hvað vildi svo Miðflokkurinn gera við þá fjármuni sem þarna eru undir? Í aðalatriðum má skipta útgjaldatillögunum í fernt. 1. Að stuðla að öflugri atvinnurekstri með raunverulegri lækkun tryggingagjalds. 2. Að efla stöðu aldraðra og öryrkja með því að atvinnutekjur rýri ekki lífeyrisgreiðslur ásamt því að efla rekstur hjúkrunarheimila. 3. Að efla löggæslu og tollgæslu og þar með öryggi á landamærum til að freista þess að stemma stigu við stórauknum fíkniefnainnflutningi. 4. Að efla geðsvið Landspítalans einkum vegna þeirrar ógnar sem steðjar að ungu fólki með geðrænan vanda oft af völdum fíknar. Þrátt fyrir að allar tillögurnar hafi verið felldar af stjórnarmeirihlutanum munu einhverjar þeirra verða endurfluttar við 3. umræðu innan skamms til þess að gefa mönnum tækifæri til að sjá að sér og sýna í verki hvort yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar um eflingu Alþingis er meira en orðin tóm.
Höfundur: Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 25. nóvember, 2019