Framtíð okkar allra

Það er stór áfangi að eldast, það á að vera gott að eldast og við eigum að geta hugsað til eldri áranna sem áhyggjulauss lífs, en sú er ekki raunin fyrir marga. Eldri borgurum hafa verið veitt fyrirheit síðustu árin um bætt kjör og leiðréttingu vegna ósanngjarnra skerðinga, en ekkert hefur verið gert. Það er margt sem þarf að gera betur í málefnum eldri borgara.

Viðvarandi skortur er á hjúkrunarrýmum, langir biðlistar hafa verið síðustu ár eftir hjúkrunarrýmum og hafa biðlistarnir lengst hratt síðustu ár. Kallað hefur verið eftir úrbótum frá stjórnvöldum við fjölgun hjúkrunarrýma og bætt starfsumhverfi hjúkrunarheimila. Sveitarfélög ráða mörg hver ekki við reksturinn og hafa óskað eftir því að ríkið taki yfir rekstur hjúkrunarheimila. Ekki hefur verið brugðist við ákalli um breytt starfsumhverfi og er löngu komið að þolmörkum. Í byrjun þessa árs voru 453 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými á öllu landinu, þessa biðlista verður að leysa. Meðalaldur Íslendinga hefur farið hækkandi síðustu áratugi, það segir sig sjálft að með hækkandi meðalaldri þarf að bregðast við, það vandamál mun ekki leysast að sjálfu sér heldur mun versna ef ekkert verður að gert.

Fjölbreyttara búsetuúrræði þarf, úrræði sem tekur við þegar einstaklingar geta ekki búið lengur heima en hjúkrunarheimili hentar ekki. Kallað hefur verið eftir því að það millibilsástand sem þarna skapast verði brúað, fjölgað verði búsetuúrræðum fyrir þennan hóp.

Lítið sem ekkert hefur gerst í málefnum eldri borgara á þessu kjörtímabili og er búsetuúrræði einungis brot af því sem betur má fara. Eldri borgarar eiga að fá að lifa áhyggjulausu lífi og fá til baka frá samfélaginu sem þeir hafa byggt upp og öðlast þannig réttindi, kjör og aðstæður sem þeir eiga skilið. Málefnin verður að vinna í góðu sambandi við eldri borgara því þannig náum við góðum árangri.

Málefni eldri borgara eru málefni okkar allra. Yngra fólk ber mikinn hag fyrir eldri borgurum og er ekki síður hæft til að vinna að þeim málefnum.

Miðflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að kjör eldri borgara verði bætt og staðið verði við gefin fyrirheit. Sýna verður því fólki sem hefur byggt upp samfélagið að við kunnum að meta framlag þess. Leiðrétting á réttindum, kjörum og aðstæðum eldri borgara getur ekki beðið lengur.

 

Fjóla Hrund Björnsdóttir skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir komandi alþingiskosningar

fjolahrund@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 31. ágúst, 2021