Gálgafrestur millilandaflugsins

Rúmum klukkutíma áður en fundur leiðtoga Evrópuráðsins hófst í Hörpu á þriðjudaginn héldu Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra blaðamannafund í ráðherrabústaðnum.

Eitt og annað kurteisishjal var nefnt, en kjarnaatriði fundar þeirra tveggja var yfirvofandi reglusetning ESB er varðar skattlagningu á millilandaflug til að haka í box í loftslagsmálunum. Niðurstaðan virtist skýr – Ísland fengi gálgafrest að hluta upp á tvö ár þar til regluverkið skyldi innleitt hér eins og annars staðar.

Niðurstaða fundarins er því eins vond og hún gat orðið fyrir íslenska hagsmuni.

Þetta regluverk mun gera út af við Ísland sem tengimiðstöð flugs til og frá Evrópu og Bandaríkjunum ásamt því að koma sérstaklega illa við íslensku flugfélögin, Icelandair og PLAY.

Ráðherrar hafa komið í röðum í pontu á Alþingi og lýst því yfir að útilokað væri að undirgangast regluverkið í núverandi mynd. Varla telja þeir skárra að undirgangast það óbreytt eftir tvö ár? Það verður því fróðlegt að sjá hvernig ráðherrarnir bregðast við niðurstöðu fundar forsætisráðherra – sem tók það fram að það ætti eftir að ræða þetta í ríkisstjórn! Samt var þetta tilkynnt með pompi og prakt, án sérstakra fyrirvara.

Ráðherrar hafa líka lýst því yfir að fulltrúar Íslands hafi átt hátt í 200 fundi með ESB til að tala máli íslenskra hagsmuna þegar kemur að þessu regluverki. Útskýra fyrir kontóristunum að ef Ísland verði látið taka þetta upp muni það gera algerlega út af við flugrekstur hér á landi – og skaða stórkostlega bæði ferðamannastrauminn og lífsgæði Íslendinga sem hafa hingað til átt marga möguleika í flugi til að komast af okkar góða skeri án þess að verða gjaldþrota.

En þessu landaði forsætisráðherrann svo með gálgafresti til tveggja ára – og kynnti það sigri hrósandi eftir fund sinn með von der Leyen. Ótrúlegt – íslenskir hagsmunir skildir eftir úti á berangri.

Áhrif regluverksins verða gríðarleg á framboð á flugi, verð flugs, inn- og útflutning, möguleika fyrirtækja til að koma sér fyrir á Íslandi og svo mætti áfram telja.

Ríkisstjórnin lét plata sig í málinu eins og margir óttuðust. Þessari óværu fyrir íslenska hagsmuni hefur nú verið frestað – ekki hafnað. Ríkisstjórn sem það gerir snýr sér ekki við og spyrnir við fótum í málinu í sameiginlegu EES-nefndinni.

ESB telur málið leyst, enda lúkning málsins þegar tilkynnt.

En vonandi fá ráðherrarnir fleiri boð í kokteila með ESB-fólkinu – það er víst ægilega gaman.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 19. maí, 2023.