Háhýsi við Hamraborg

Skipulagsvald er alfarið í höndum sveitarfélaga. Lagabálkurinn sem fjallar um regluverk skipulagslaga eru lög 2010 nr. 123. Um markmið laganna er fjallað í 1. grein. Þar segir í d lið: „d. að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana“

Hvernig skyldi slíkt samráð fara fram? Yfirleitt endurskoðar sveitarfélag aðalskipulag einu sinni á kjörtímabili. Aðalskipulag má segja að sé framtíðasýn og áætlun um landnotkun. Deiliskipulag tekur til afmarkaðra hluta lands og er nákvæm úrfærsla á notkun og nýtingu svæða og lóða.

Íbúar geta sent inn athugasemdir á meðan aðal og deiliskipulag er í kynningu en það er alfarið í höndum skipulagsráðs og eftir atvikum bæjarstjórnar að taka tillit til athugasemda eða ekki.

51. grein skipulagslaga fjallar um bætur en þar segir í 1. málgr. „Leiði skipulag eða breyting á skipulagi til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, á sá er getur sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi.“

Hér stendur hnífurinn í kúnni bæjaryfirvöl þurfa ekki að taka tillit til athugasemda frekar en þeim sýnist. Íbúar geta hins vegar leitað réttar síns en það ferli getur verið flókið og tímafrekt auk þess sem slíku ferli fylgir yfirleitt mikill kostnaður.

Sú byggð sem nú stendur til að reisa á Fannarborgarreitnum mun hafa mikil áhrif á þá íbúa sem fyrir eru. Lítið tillit ef nokkuð hefur verið tillit til vel rökstuddra andmæla íbúa.

Deilur nágranna ganga oft út á trjágróður, skjólveggi og annað sem er gert í óþökk. Í slíkum tilfellum hafa risið málaferli og eru fjölmörg dæmi um að þurft hafi að fjarlægja gróður, skúra og skjólveggi svo eitthvað sé nefnt.

Um háhýsi gegnir öðru máli. Því spyr ég hagsmuni hverra er verið að verja?

 

Brynjólfur Þorkell Brynjólfsson, formaður Miðflokksdeildar Kópavogs.

Greinin birtist á Vísi þann 9. júní, 2021