Hálendisþjóðgarður Sjálfstæðisflokks og Framsóknar

Þegar hilla fór undir þinglok blasti við flestum að frumvarp umhverfisráðherra um stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands myndi daga uppi. Málið var illa unnið í ósátt við sveitarfélögin og átti ekki annað eftir en einfaldlega deyja.

Á síðustu stundu bárust þó þær fregnir frá stjórnarflokkunum þremur á þingi að málinu yrði haldið á lífi og nýtt frumvarp lagt fram á næsta kjörtímabili. Hálendisþjóðgarðurinn eins og umhverfisráðherra sá hann fyrir sér yrði að veruleika, bara á næsta kjörtímabili.

Til að friða einhverjar sálir innan veggja ríkisstjórnarinnar var nokkrum setningum skeytt inn í nefndarálit meirihlutans í umhverfis- og samgöngunefnd um að eitt og annað skyldi skoðað í millitíðinni. Þegar betur var að gáð er ljóst að það eru allt álitamál sem umhverfisráðherra hefur þegar skoðað og tekið afstöðu til. Þessi nýja skoðun á sömu atriðum er því aðeins til málamynda.

Skilaboð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til kjósenda sinna við þinglok eru því þessi: Við ætlum að hjálpa umhverfisráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni og Vinstri-grænum að stofnanavæða hálendið og koma á þessum þjóðgarði. Okkur þykir bara betra að gera það eftir kosningar því við nennum ekki að útskýra fyrir kjósendum okkar að við höfum raunverulega keypt ráðherrastólana þessu verði.

Það verður hreinlega ekki um villst hver vilji sjálfstæðismanna og framsóknarmanna er í þessum efnum því í nefndaráliti segja þessir flokkar, í félagi við Vinstri-græna: „… leggur meirihlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fram nýtt frumvarp um málið.“ Orðrétt.

Ef einhver velktist þó áfram í vafa um fyrirætlan Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna í þessum efnum þá þarf ekki að horfa lengra en til orða umhverfisráðherra í umræðu um atkvæðagreiðsluna þegar málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar á lokadögum þingsins: „En niðurstaðan, sem vísunin er, til ríkisstjórnar, að í henni felast samt sem áður skýr skilaboð Alþingis til ríkisstjórnar og ráðherra um að vinna að málinu áfram og leggja fram frumvarp um hálendisþjóðgarð að nýju og þetta eru mikilvæg skilaboð Alþingis til framkvæmdavaldsins. Núna er verkefnið að sameinast um að ná meiri sátt um málið, koma hálendisþjóðgarði á koppinn á næsta kjörtímabili.“ Þar kom það.

Það er því endanlega ljóst við hverju fólk má búast ef Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri-grænir halda ríkisstjórnarsamstarfi sínu áfram: Stofnanavæðingu hálendisins; hálendisþjóðgarði í þeirri mynd sem umhverfisráðherra hefur teiknað svo skýrt upp.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa því gefið upp boltann – þeir munu ekki verða fyrirstaða í þeirri vegferð Vinstrigrænna að leggja þriðjung landsins alls undir þjóðgarð.

Það er auðvitað leitt að sjá að þessir tveir öldungar í íslenskum stjórnmálum, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, standi ekki traustari fótum en raun ber vitni þegar kemur að stórum áhrifaríkum ákvörðunum sem varða hag lands og þjóðar um ókomna tíð.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins 

bergthorola@althingi.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 19. júní, 2021