Hátíðarræður fæða ekki fólk

Þegar styttast fer í kosningar fjölgar í orði kveðnu vinum íslensks landbúnaðar og jafnvel talsmenn lítilla hafta á innfluttar landbúnaðarvörur reyna að selja almenningi þá hugmyndafræði að óeða lítið heftur innflutningur efli íslenskan landbúnað með rökum eins og að heilbrigð samkeppni á markaðslegum forsendum ýti undir þróun í innlendri matvælaframleiðslu. Hljómar trúverðugt í eyrum margra þótt oftast nær skauti þessir aðilar yfir þá staðreynd að innflutt matvæli eru alla jafna styrkt af ríkjum framleiðslulandsins óháð þróun framleiðslunnar í viðkomandi ríki. Svo ekki sé minnst á matvælaöryggi þjóðarinnar, sem alþjóðabankakreppan og heimsfaraldur ættu að hafa minnt okkur Íslendinga rækilega á. Staðreyndir eru ekki alltaf auðveldasta söluvaran.

Staðreyndir

Ef litið er á tölulegar upplýsingar frá tímabilinu 2015 til 2018 má áætla að nýtanlegt land til landbúnaðar undir 200 m hæð frá sjávarmáli sé nálægt 600.000 ha en land í notkun á sama tímabili u.þ.b. 100.000 ha, þ.e. 1/6 af nýtanlegu landi, og meðalbústærð um 1.100 ha. Til samanburðar er Íslendinganýlendan Tenerife aðeins um 203.400 ha! Rétt rúmlega 1/3 af ræktanlegu landi á Íslandi. Þarna eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu, ekki síst vegna þess að landbúnaður á heimsvísu er að færast á norðlægari slóðir. Þessar tölur verða svo að skoðast í samhengi við ört vaxandi fæðuþörf heimsins og þá staðreynd að sum og þá einkum vinstrisinnuð öfl vilja frekar nýta þetta land undir framleiðslu á lífdísel eða jafnvel friða það, eins og dæmin sanna, samhliða því að moka ofan í skurði og skerða þannig ræktunarmöguleika á afurðum til manneldis. Og á öllum þessum hekturum má finna á áðurgreindu tímabili 430-500.000 sauðfjár, 75- 80.000 nautgripi og 65-75.000 hross. Var okkur ekki talin trú um að landið væri ofnýtt? Öfgahyggja mun ekki fæða meinta skjólstæðinga vinstristefnunnar né stuðla að réttlátara samfélagi. Miklu fremur mun hún draga úr afkastagetu matvælaiðnaðarins, sem aftur þýðir meiri eftirspurn og hærra verð. Er það stefna sem nýtist þeim hópi fólks sem vegna lágra tekna hefur slakara aðgengi að hollustuvöru? Eða er það stefna sem ýtir undir neyslu mikið unninna matvæla með íblöndunarefnum sem hafa þann eina tilgang að drýgja vöruna til virðisauka fyrir milliliði, hugsanlega á kostnað lýðheilsu?

Landbúnaður þéttbýlisins vegna

Bú sem framleiða vörur af ýmsu tagi voru rúmlega 3.000 árið 2015. Margfeldisáhrif landbúnaðar eru nær örugglega vanmetin í pólitísku dægurþrasi, en á búum landsins eru framleiddar búvörur á borð við mjólk, kjöt, garðyrkjuafurðir, egg og fleira. Auk þessa eru bændur sem stunda ferðaþjónustu, skógrækt og landgræðslu sem og hlunnindanýtingu. En jafnvel þótt ferðaþjónustubændur séu teknir út fyrir sviga má varlega ætla að vegna afleiddra starfa, einkum í þéttbýli, hafi á bilinu 10 til 15 þúsund Íslendingar beina eða óbeina framfærslu af íslenskum landbúnaði og hér hefur ekki verið minnst einu orði á þann gjaldeyri sem greinin sparar íslenskri þjóð. Hér er því um að ræða stóriðju í dreifbýli sem ekki nýtur alltaf sannmælis.

Hátíðarræður og skjall

Nú líður að kosningum og upp er runninn sá tími er forystufólk í íslenskri pólitík keppist við að friðmælast við bændur þessa lands með hástemmdum hátíðarræðum og skjalli um gildi íslensks landbúnaðar, og gömul margtuggin kosningafyrirheit ganga í endurnýjun lífdaga. Þá er rétt að staldra við og hugsa til baka um leið og horft er fram á við. Hvað hafa fulltrúar gömlu flokkanna sagt og hverju hafa þeir áður lofað? En síðast en ekki síst: Hverju hefur það skilað? Hafa farið saman hljóð og mynd?

Miðflokkurinn lagði fram metnaðarfulla þingsályktunartillögu í vetur sem hnykkir á mikilvægi stefnu flokksins í landbúnaði og mun setja fram frekari útlistanir á henni á komandi vikum. Tillögur sem byggjast á kjarkmikilli og nýstárlegri nálgun undir yfirskriftinni Ísland allt. Enda á landið allt mikið undir þeirri sýn sem endurspeglast í stefnu flokksins jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.

Til marks um getuleysi íslenskra pólitíkusa leyfi ég mér að benda á frétt í Bændablaðinu frá 12. maí 2021 þar sem farið er yfir ábendingar Ernu Bjarnadóttur hagfræðings sem hefur verið ötull talsmaður íslensks landbúnaðar.

Fjölmargir byggðakjarnar Íslands reiða sig á öflugan landbúnað. Ísland allt.

 

Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 19. júní, 2021