Hvað hafa skattgreiðendur gert ríkisstjórninni?

Það þótti undarleg sú mikla leynd sem var yfir samkomulagi sem forsætis-, fjármála- og samgönguráðherra undirrituðu með borgar- og bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu í liðinni viku.  Þörfin fyrir leyndina varð þó öllum ljós þegar undirritað plaggið birtist loks sl. fimmtudag.
 

Fyrstu viðbrögð undirritaðs þegar plöggin voru birt voru að hugsa  „Hvað ætli Eyþór hafi gert Bjarna?“, en eftir að hafa lesið samkomulagið vandlega situr eftir spurningin „Hvað hafa skattgreiðendur gert ríkisstjórninni?“

Í samkomulaginu, sem væri réttara að kalla viljayfirlýsingu, tekst á sex blaðsíðum að færa ríkinu skyldur upp á rúma 100 milljarða – eitt hundrað þúsund milljónir!

En skyldur sveitarfélaganna eru sáralitlar.

Það verður sérstakt rannsóknarverkefni að finna út úr því hvernig samningamenn ríkisins létu plata sig með þessum hætti.  Höfuðið var svo bitið af skömminni með því að ramma fullnaðarsigur borgarstjóra inn með því að sleppa borginni við að takast á hendur skuldbindingar um legu Sundabrautar og yfirhöfuð að því mikilvæga verkefni verði sleppt úr gíslingu borgaryfirvalda.

Staðreyndin er sú að engin þeirra framkvæmda sem ætlunin er að vinna að á stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins er ný af nálinni, nema ef vera skyldi að setja hluta Sæbrautar í stokk.  Öll önnur verkefni voru á áætlun en höfðu liðið fyrir samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 2012 um stórframkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu.  Viðbótin í „pakkanum“ felst í verkefnum tengdum hinni mjög svo óskilgreindu borgarlínu.  Vegna hennar skal sækja 60 milljarða (nettó) í vasa bifreiðaeigenda.

Gjaldtökuhugmyndirnar eru jafnvel enn verr skilgreindar en þessi svokallaða borgarlína.  Í samkomulaginu undirgangast ráðherrarnir að flýti- og umferðargjöld verði skilgreind og innheimt til að ná fram markmiðum samkomulagsins.  Það var ekki liðinn sólarhringur frá undirritun þegar fjármálaráðherra mætti í prýðisgott viðtal á mbl.is þar sem hann talaði fyrir því að sala Íslandsbanka gæti fjármagnað samkomulagið.

Til viðbótar við þær upphæðir sem þegar hafa verið nefndar var undirritað hliðarsamkomulag varðandi rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.  Þar er lagður grunnur að því að sækja 12 milljarðar frá ríkissjóði til viðbótar við þá 10 sem ríkissjóður hefur þegar ráðstafað í rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli áðurnefnds samkomulags um stórframkvæmdastopp.

Hingað til hafa 7 milljarðar af áður áætluðu framkvæmdafé Vegagerðarinnar farið í rekstur Strætó bs. með þeim árangri að hlutfall farinna ferða með strætó á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki haggast á samningstímanum, það var 4,0% árið 2012 og er enn 4,0%! Það verður dýr lexía ef árangurinn verður svipaður af borgarlínuævintýrinu.

 

Höfundur:  Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.  bergthorola@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 30. september, 2019