Hvernig viljum við sjá framtíð landbúnaðar?

Innlend matvælaframleiðsla er ein af grunnforsendum þess að við byggjum sjálfbært og sjálfstætt samfélag til framtíðar. Varla nokkur skynsamur maður heldur öðru fram. Framtíð landbúnaðar veltur á ýmsu, má þar nefna á skilningi stjórnmálamanna, en umfram allt getu þjóðarinnar til að skoða heildarmyndina. Öllum ætti að vera ljóst að víða liggja vannýtt tækifæri í landbúnaði á Íslandi.

Fæðuþörf heimsins mun aukast og með aukinni þörf mun að sjálfsögðu aukast eftirspurn eftir hágæða heilnæmum matvælum. Við höfum lært það undanfarið að ófyrirséðar aðstæður geta komið upp. Viljum við vera í þeirri stöðu að vera upp á aðra komin í matvælaframleiðslu. Heimsfaraldur C kórónuveiru hefði getað einangrað okkur meira en raun varð. Gosið á Reykjanesi minnir okkur á öfl náttúrunnar, þar sem maðurinn má sín lítils.

Þrátt fyrir að íslenskur landbúnaður hafi staðið höllum fæti um langa hríð og farið halloka í umræðum og forgangsröðun stjórnvalda, eru sóknarfærin víða. Huga þarf að allri virðiskeðju matvælaframleiðslunnar allt frá frumframleiðslu bænda og innlendri kjarnfóðurframleiðslu að úrvinnslu matvæla á öllum stigum. Skapa þarf jákvætt starfsumhverfi frumkvöðla sem leita leiða til að fullnýta afurðir, minnka umhverfisspor og búa til verðmæti úr áður ónýttum afurðum. Ódýr hrein orka, hreint vatn og loft leika lykilhlutverk í framtíðarmatvælaframleiðslu á Íslandi.

Við í Miðflokknum lögðum fram þingsályktun á síðasta vetri, þar sem gerð er tillaga í 24 liðum um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

Ferðaþjónustan varð á skömmum tíma stærsta útflutningagrein þjóðarinnar. í fyrstu fólst aðdráttarafl landsins einkum í áhuga ferðamanna á að skoða íslenska náttúru. Hringinn í kringum landið tóku bændur til við að þjónusta ferðamenn með gistingu, afþreyingu og mat. Býlin voru opnuð og geta ferðamenn gist, snætt og notið náttúrunnar hjá bændum um land allt.

Landbúnaður er í eðli sínu atvinnugrein sem þarf skýrt starfsumhverfi, afkomuöryggi, langtímasýn og ákvarðanir sem teknar eru til langs tíma.

Þegar bændur bregða búi geta áhrifin til skamms eða langs tíma verið grafalvarleg. Það getur verið dýrt og óhagkvæmt að hefja búskap og nýtingu lands sem hefur ekki verið í notkun lengi. Mikil verðmæti liggja í innviðum til sveita, í byggingum, ræktun lands, bústofnum og verkþekkingu. Það er þjóðarógæfa að láta slíkt fara forgörðum.

Nauðsynlegt er að ríkið skilgreini markmið með stuðningi sínum við landbúnað og vinni síðan að þeim markmiðum á öllum vígstöðvum. Þetta þarf að gera með tilliti til mikilvægi matvæla– og fæðuöryggis þjóðarinnar, byggðasjónarmiða, samkeppnismála, skipulagsmála, mannauðs og fleiri þátta.

Hefðbundnar greinar í landbúnaði hafa verið og eru í vörn. Staða innlendra framleiðenda gagnvart innfluttri vöru er erfið og snýr t.d. að tollamálum og samkeppnismálum, en líkt og aðrir innlendir framleiðendur á landbúnaðurinn mikið undir samstarfi og vilja verslunarinnar. Þetta á við um allar stærstu greinar landbúnaðarins: suðfjárrækt, mjólkurframleiðslu, nauta- og svínakjötsframleiðslu og garðyrkju.

Þrátt fyrir áskoranir eru sóknarfærin til staðar ef landbúnaðinum eru sköpuð skilyrði til að starfa og þróast. Til að nýsköpun og þróun fái þrifist innan greinarinnar þarf stöðugleika og framtíðarsýn.

 

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins í norðvesturkjördæmi

Greinin birtist á Feyki þann 9. júní, 2021