Ísland allt

Áratugum saman hefur verið rætt um mikilvægi byggðamála á Íslandi.  En viðbrögðin hafa ekki dugað. Það að gera dálítið hér og dálítið þar er fullreynt. Það hefur ekki virkað til að snúa við áratuga þróun, þróun sem hefur slæm áhrif á allt landið.  Við Íslendingar erum ekki nema rúmlega 350.000 og eigum stórt og gjöfult land.  Þegar við nýtum ekki landið allt skaðar það samfélagið og kemur í veg fyrir að við nýtum ótal tækifæri.

Fyrir síðustu kosningar kynnti Miðflokkurinn áætlunina Ísland allt.  Stórtækustu áætlun sem kynnt hefur verið um að efla byggðir landsins alls.

Áætlunin snýst um að líta á heildarmyndina, ekki bara afmarkaðan landshluta eða eitt svið atvinnu, innviða eða þjónustu.  Með því að líta á heildaráhrifin og langtímaáhrifin getum við leyft okkur að ráðast í miklar fjárfestingar í þeirri vissu að eitt muni styðja annað og áhrifin verði á endanum hagkvæm fyrir allt Ísland.

Allt helst þetta í hendur, heilbrigðismál, menntun og önnur þjónusta ríkisins, samgöngur, nýir hvatar í skattkerfinu, atvinnuuppbygging, orkumál, fjarskipti og annað sem varðar daglegt líf fólks.

Grunnhugmyndin er sú að allir landsmenn eigi rétt á sömu þjónustu og lífsgæðum óháð búsetu.  Það virðist augljóst að þannig eigi það að vera en Miðflokkurinn er með skýra áætlun um hvernig það geti orðið að veruleika.