Kosningabaráttan leggst vel í Tómas Ellert

Tómas Ellert Tómasson er bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg og skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir komandi Alþingiskosningar.

Eftirfarandi viðtal við Tómas Ellert birtist í Dagskránni á Selfossi á dögunum og veitir góða innsýn á þá ákvörðun hans að bjóða sig fram á lista í Reykjavík norður.

Hvers vegna ertu að fara fram í Reykjavík norður?

Það atvikaðist nú bara þannig til að fulltrúar uppstillinganefndar Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður höfðu einfaldlega samband við mig og óskuðu eftir starfskröftum mínum í 2. sætið á framboðslistanum og gengu síðan fast eftir því að ég myndi þiggja boðið.

Af hverju sóttust þau eftir þínum starfskröftum?

Í söluræðunni. töldu þau mig geta styrkt framboðið vegna þeirrar þekkingar sem ég hef á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og innviðum hennar frá því ég vann á Umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar sem verkefnastjóri á skrifstofu framkvæmda og viðhalds (SFV), á árunum 2015 til 2019, en SFV sér um stofnframkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar og allt viðhald á eignasafni borgarinnar þ.e. húseignum, samgöngumannvirkjum og opnum svæðum. Auk þess að sækjast eftir þekkingu minni á Reykjavíkurborg taldi uppstillinganefndin það vera eftirsóknarvert að fá mig til liðs við sig í ljósi þeirrar eftirtektarverðu uppbyggingar innviða sem framkvæmd hefur verið hér í Svf. Árborg á undanförnum þremur árum og að mikil þörf væri á slíkum slagkrafti í Reykjavík, meðal annars þegar kemur að uppbyggingu þjóðarleikvanga og samgöngumannvirkja sem eru á forræði Vegagerðarinnar s.s. Sundabraut og öðrum samgönguæðum innan, og til og frá borginni, auk þess sem verja þyrfti og veita öflugan stuðning við endurreisn Reykjavíkurflugvallar.

Og hvað fannst þér um þetta boð?

Í hreinskilni sagt, fannst mér þetta vera fjarstæðukennd hugmynd í fyrstu, en eftir að hafa hugsað málið í stutta stund, hugsaði ég með mér: „Af hverju ekki?“ - Við búum jú og störfum á sama atvinnusvæðinu og höfum því sömu hagsmuna að gæta gagnvart ríkinu hvort sem við búum í Reykjavík eða í 100 km fjarlægð þaðan í frá. Það eru meira að segja miklir hagsmunir í húfi fyrir Reykvíkinga, ef út í það er farið, að ný Selfossbrú yfir Ölfusá rísi sem allra fyrst. Brú sem hefði átt að vera komin í notkun fyrir nokkrum árum ef allt væri eðlilegt. Mér hefur einnig þótt vanta verulega mikið upp á það undanfarin ár að Reykjavík sé að rækja hlutverk sitt sem höfuðborg allra landsmanna og mér hefur fundist sem svo vera að flestöllum alþingismönnum Reykvíkinga sé alveg sama um það hlutverk borgarinnar. Mér stendur ekki á sama og ég tel að meirihluti íbúa Reykjavíkur og allri landsbyggðinni standi heldur ekki á sama.

Sá mikli heiður og viðurkenning á störfum mínum sem bæjarfulltrúi hér í Svf. Árborg sem mér var sýndur af uppstillinganefndinni, að sækja svo stíft eftir starfskröftum mínum í Reykjavík, gerði það að verkum að ég gat ekki annað en þegið boðið. Ég gaf nú samt ekki jákvætt svar við beiðninni fyrr en nokkrum dögum síðar, er ég var búinn að ráðfæra mig við fjölskylduna og svara ansi mörgum símhringingum og skilaboðum.

Hvernig leggst svo kosningabaráttan í þig?

Hún leggst mjög vel í mig. Ég er satt best að segja fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni og vinna að óvæntum en sanngjörnum kosningasigri Miðflokksins í haust.