Lækkum skatta!

Formaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði grein undir yfirskriftinni „Við lækkum skatta“ þann 12. júní sl. á þessum vettvangi. Fór hann þar yfir farinn veg í skattamálum og ætla má að Sjálfstæðisflokkurinn hafi áttað sig aftur á því að hóflegir skattar séu eina leiðin áfram fyrir íslenska þjóð.

Fjármálaráðherra þræddi það í stuttu máli hvað hefði áunnist í skattamálum síðustu misseri og má fagna því sem vel er gert. Stimpilgjald hefur lækkað, tryggingagjaldið sömuleiðis þótt hægt gangi í þeim efnum, raunar mun hægar en fyrirheit voru gefin um kjörtímabilið 2013–16 í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, söluhagnaður sumarhúsa var gerður skattfrjáls svo nokkur dæmi séu nefnd. En vandinn er að þetta er fjarri því nóg að gert – fólkið og fyrirtækin þurfa lægri álögur og svigrúm til að vaxa, dafna og skapa ný tækifæri.

Staðreyndin er sú að Ísland mælist í 2. sæti á skattalista OECD sem þýðir að íslensk þjóð er sú næstskattpíndasta af þeim 37 ríkjum sem mynda OECD. Mælingin tekur tillit mismunandi fjármögnunar lífeyriskerfa en eftir stendur að Ísland er háskattaland.

Þetta er staða sem ekki verður við unað – þaðan af síður á tímum þegar íslensk þjóð vinnur sig út úr efnahagslegu áfalli í kjölfar heimsfaraldurs. Sem betur fer var ríkissjóður í góðum færum til að standa af sér áfallið, meðal annars vegna stöðugleikaframlaga slitabúa gömlu bankanna sem gjörbreyttu stöðu ríkissjóðs í einu vetfangi. Þessi framlög voru afrakstur alvöru pólitískrar forystu þegar alvöru pólitísk sýn fékk að ráða ferð við ríkisstjórnarborðið.

Skattar eru ekki aðeins háir hér á landi heldur er skattkerfið einnig afar flókið og hefur bara versnað á síðustu árum. Á liðnu kjörtímabili var til dæmis bætt við skattþrepi í tekjuskatti einstaklinga, fjármagnstekjuskattur var hækkaður og hækkunin réttlætt með því að skatturinn yrði lækkaður á ný en þá með enn frekari flækjum.

Við höfum knappan tíma til að bregðast við svo íslenskt atvinnulíf komi burðugt út úr þessum krefjandi tímum í kjölfar heimsfaraldurs. Það þarf styrka stjórn, alvöru pólitíska sýn til að taka erfiðar ákvarðanir í þágu einstaklinganna og fyrirtækjanna í landinu. Við ætlum að lækka tekjuskatt einstaklinga og fyrirtækja umtalsvert og hvetja þannig fólk til dáða hvað fjárfestingar í atvinnulífinu varðar. Einföldum regluverk og tryggjum að skattgreiðendur fái meira fyrir peninginn sem fer í rekstur ríkisins í formi betri þjónustu.

Leyfum fólki og fyrirtækjum að verja orkunni í það sem stendur því næst – ekki í slag við báknið.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins

bergthorola@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 15. júní, 2021