Lækkun eða afnám tryggingagjalds

 

Þorsteinn Sæmundsson tók til máls í Störfum þingsins á Alþingi í dag:

Herra forseti. Við þingmenn erum hér á hverjum degi nánast að taka ákvarðanir sem munu hafa til skamms og langs tíma áhrif á rekstur ríkisins og ríkissjóð. Við gerum það í þeirri von að þegar þessari veiru linnir verði atvinnulífið í stakk búið til þess að grípa tækifærið og efla Ísland sem aldrei fyrr. Eitt af því sem við Miðflokksmenn höfum lagt til í þessari baráttu er að lækka tryggingagjald og jafnvel afnema það núna seinni part þessa árs. Á þetta hefur ekki verið fallist og forsætisráðherra lét hafa það eftir sér, þegar þessar tillögur okkar komu fram, að þær væru óraunhæfar og ekki væri hægt að reka ríkissjóð þannig, og núna út af miklu atvinnuleysi væri ekki hægt að kippa stoðunum undan þeim skatti sem stæði undir atvinnuleysi.
Nú er ekkert sérlega álitlegt að vera með sérstakan skatt til að standa undir atvinnuleysi. Það er í sjálfu sér miklu álitlegra og æskilegra að lækka skatt sem verður til þess að hvetja fyrirtæki til að ráða fólk. Þegar þessari veiru linnir þurfum við hér að setja þær skorður að fyrirtæki verði beinlínis hvött til þess að fjölga starfsfólki en ekki lött. Á því byggist sókn okkar til framtíðar, þ.e. að við séum ekki að hengja atvinnulífið í enn meira skattahelsi og koma í veg fyrir að atvinnuleysi hér dvíni þegar sést til sólar á ný.

Upptöku af ræðu Þorsteins má sjá hér.