Lán Íbúðalánasjóðs sem bera uppgreiðslugjald

Á þriðjudaginn var Þorsteinn Sæmundsson fyrirspyrjandi í umræðu um lán Íbúðalánasjóðs sem bera uppgreiðslugjald.

Fyrirspurn Þorsteins til félags- og barnamálaráðherra var eftirfarandi:

"Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir að koma til þessarar umræðu. Fljótt á litið virðist það vera þannig að viðskipti við Íbúðalánasjóð hafi á margan hátt verið óhagstæðari en við aðra lánveitendur; hærri vextir, lakari kjör. Það er sérstaklega ein týpa af lánum sem ég hef orðið var við og fengið viðbrögð við frá fólki, líka út af öðrum viðskiptum við Íbúðalánasjóð sem ég hef átt. Fólk hefur verið að spyrja hvernig það geti verið að lán sem ég held að hafi verið tekin á árunum 2009–2010 beri uppgreiðslugjald, sem samkvæmt mínum heimildum er allt að 16%, auk þess að bera vexti sem eru 5,1–5,5% plús verðtrygging. Það þýðir að fólk sem er með þessi lán er algerlega læst inni. Það er mjög dýrt að endurfjármagna lánin út af uppgreiðslugjaldinu og það er líka hamlandi í sölu fasteignar að lán af þessu tagi hvíli á henni. Það vill enginn kaupa.

Spurningarnar sem ég ber upp við ráðherra bera þess merki að ég reyndi að hluta til að ná þessum upplýsingum út úr Íbúðalánasjóði. Það gekk mjög stirt. En spurningarnar eru:

1. Hversu mörg virk lán Íbúðalánasjóðs bera uppgreiðslugjald?

2. Á hvaða árabili voru slík lán í boði?

3. Hversu há eru lánin samtals?

Og lykilspurningin:

4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir skilmálabreytingu þannig að það verði hagstæðara fyrir skuldara framangreindra lána að greiða þau upp?

Ég geri mér grein fyrir að verði slík skilmálabreyting gerð þá lendir kostnaðurinn af því á ríkissjóði. Ég man ekki betur, og ég verð þá leiðréttur, en að nú þegar Covid-19 ástandið byrjaði hafi ein af þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin vildi gera fyrir almenning verið að hvetja til þess að fólk gæti skuldbreytt óhagstæðum lánum. Það dæmi sem ég ber hér fram er alveg kjörið til þess að gera það. Ég tek tillit til þess að Íbúðalánasjóður er að lána á svæði sem aðrir lána ekki inn á, ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er ekki alveg svart og hvítt. En þegar hægt er að fá verðtryggð lán sem bera 2% vexti, jafnvel minna, plús verðtryggingu, þá hlýtur að vera alveg ömurlegt fyrir fólk að sitja uppi með þessi lán og eins og ég segi, sitja á eignum sem slík lán hvíla á. Þess vegna fýsir mig mjög að fá viðbrögð ráðherra við því hvort hann hyggst gera eitthvað fyrir þennan hóp sem ég fæ nú að heyra hversu stór er. Ég hlakka til að heyra viðbrögð hans við fyrirspurn minni."

Svar ráðherra og umræðuna alla má sjá hér.

Umræðu um fyrirspurnina má sjá hér.