Línudans með fjármuni almennings

Framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. (BS) birti í Morgunblaðinu afar villandi greinarstúf um borgarlínu 16. júní sl.

Í greininni segir m.a.: „Hugmyndir um létt hraðvagnakerfi eru ekki nýjar af nálinni. Þetta er einn af þeim kostum sem voru skoðaðir í aðdraganda þess að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015 var sett. Þá var niðurstaðan að létt hraðvagnakerfi myndi ekki ná sama árangri og hágæða hraðvagnakerfi og að samfélagslegur kostnaður yrði mun hærri ef ekki væri farið í hágæða kerfi.“

Hér er látið að því liggja að á árunum fyrir 2015 hafi létt borgarlína (BRT-Lite) verið afgreidd út af borðinu sem „óhagkvæmur“ kostur. Í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 segir í kafla 2.2.: „Hágæðakerfi almenningssamgangna, annaðhvort hraðvagnakerfi (e. Bus Rapid Transit [innskot: BRT]) eða léttlestakerfi (e. Light Rail Transit) eru til staðar eða í uppbyggingu á fjölmörgum borgarsvæðum sem eru með sambærilegan íbúafjölda og í örum vexti eins og höfuðborgarsvæðið.“ Hvergi er þarna að sjá að létt borgarlína (létt hraðvagnakerfi – BRT-Lite) sé eitthvað lakari en aðrar útgáfur af hraðvagnakerfi sé litið samhliða til kostnaðarþáttarins. Það sem í raun er „hágæða“ er eitthvað sem er betra en núverandi fyrirkomulag Strætó. Hraðvagnakerfi geta einmitt þróast í margvíslegar útgáfur hraðvagnakerfis, létt borgarlína er eitt þeirra.

Verkfræðistofan Mannvit birti skýrslu í mars 2012. Bar hún yfirskriftina „AlmenningssamgöngurHraðvagnakerfi“ og var unnin fyrir tilstuðlan Vegagerðarinnar. Þar segir varðandi skilgreiningu á hraðvagnakerfi (BRT): „Hraðvagnakerfi er samþætt kerfi innviða, þjónustu og þæginda sem saman bæta hraða, áreiðanleika og yfirbragð strætisvagna. Eiginleikar hraðvagnakerfa eru blanda af eiginleikum strætisvagnakerfa og lestarkerfa og þar sem mest er lagt í hraðvagnakerfi eru þau eins konar léttlestarkerfi á gúmmíhjólum. Fjöldi rannsókna sýnir betri frammistöðu hraðvagnakerfa en léttlestarkerfa þrátt fyrir minni kostnað.“ Þarna er vísað til bandarískra rannsókna frá 2003 og 2009 um framangreint efni. En léttlestarkerfið, sem varð ekki fyrir valinu, er ekki létt hraðvagnakerfi, þ.e. létt borgarlína (BRT-Lite).

Í þessari skýrslu Mannvits frá 2012 er getið um létta borgarlínu (BRT-Lite) sem svipar til þeirrar lausnar sem ÁS leggur upp með og hefur hvatt bæði ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu til að horfa til sem eina af þeim „hágæða“ hraðvagnalausnum sem fyrsta skrefið í innleiðingu BRT-kerfis á Íslandi. Þar segir einnig: „Sérstök rannsókn á ímynd mismunandi almenningssamgöngukerfa leiddi í ljós að ódýrt hraðvagnakerfi (e. BRT-Lite) fékk aðeins lægri heildareinkunn en dýrt hraðvagnakerfi, í könnun meðal notenda, á meðan kostnaðurinn var u.þ.b. 100 sinnum minni. Ódýra hraðvagnakerfið fékk einnig mun hærri einkunn en hefðbundna strætisvagnakerfið, þrátt fyrir að vera einnig í blandaðri umferð. Notendum fannst hraðvagnakerfið vera nokkurs konar hágæða útgáfa af strætisvagnakerfinu.“ Gæti verið að almenningur sé að leita eftir hærra þjónustustigi sem er „hágæða“ þjónusta m.v. þá þjónustu sem Strætó býður upp á í dag?

Gæti verið að þar liggi einmitt hundurinn grafinn, þ.e. að orðið „hágæða“ á að standa fyrir aukið þjónustustig við almenning á sem hagkvæmastan hátt? Er ekki markmiðið að auka afköst, liðka fyrir umferð, auka tíðni ferða og tryggja lágmarks óþægindi fyrir alla umferð á höfuðborgarsvæðinu? Með BRT-Lite lausn ÁS er í raun byggt á bestu lausn BRTkerfisins.

BRT-Lite er skynsamleg útgáfa „hágæða“ hraðvagnakerfis sé miðað við fjárhæð og þá almennu skynsemi að fara sér hægt og tryggja að reynsla fáist á BRT-kerfið áður en allt að 100 sinnum meiri fjármunum er ráðstafað. Þannig má meta hvort BRT nái markmiði svæðisskipulagsins um að meira en 3% allra ferða á höfuðborgarsvæðinu verði farnar með almenningssamgöngum, jafnvel eitthvað í átt að 12%. Er það ekki þess virði?

Því miður virðist sem framkvæmdastjóri BS hafi ekki séð lengra en raun ber vitni, hvorki fram á við né aftur. Það á reyndar við um fleiri, í raun alla meirihluta sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og stóran hluta þingheims sem veður í villu, jafnvel enn þann dag í dag. Fjölmargir hafa samþykkt vegferðina blindandi.

Í framangreindri skýrslu Mannvits er einnig vísað til fyrirkomulags sem yfir 20 fagmenn frá alþjóðlegu Samgöngu- og þróunarstofnuninni (e. Institute for Transportation and Development Policy – ITDP) tóku saman sem leiðavísi fyrir þá sem taka vilja upp BRT-kerfi. Eins og skynsömu fagfólki sæmir var lögð sérstök áhersla á að fyrir lægi m.a. viðskiptaáætlun þegar hraðvagnakerfi eru skipulögð. Um þetta er sérstaklega getið í kafla 4.6 í framangreindri skýrslu Mannvits frá árinu 2012. Þar segir einnig: „Hætta er á að ef einn hönnunarþáttur gleymist gæti það haft verulegar afleiðingar fyrir verkefnið og komið í veg fyrir að kerfið virkaði sem skyldi. Því er mjög mikilvægt að undirbúningsvinnan sé þannig að fátt geti komið á óvart á síðari stigum.“

Er þetta fólk ekki með öllum mjalla?

 

Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ og nefndarmaður í svæðisskipulagsnefnd SSH

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 24. júní, 2021